Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Með verkum handanna - Íslenskur refilsaumur fyrri alda

Creative Hands - Icelandic laid-and-couched embroideries of past centuries

  • Höfundur Elsa E. Guðjónsson
  • Ritstjórar Lilja Árnadóttir og Mörður Árnason
  • Myndaritstjórn Lilja Árnadóttir
  • Þýðandi Anna Yates
Forsíða bókarinnar

Í bókinni Með verkum handanna eru lagðar fram niðurstöður áratugarannsókna Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings (1924-2010) á þeim fimmtán íslensku refilsaumsklæðum sem varðveist hafa. Í klæðunum eru varðveitt einhver stórbrotnustu listaverk Íslendinga frá fyrri öldum og þau hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi.

Elsa skrifar af nákvæmni og alúð um feril, myndefni, tækni og sögulegt og listrænt samhengi hvers klæðis. Rannsóknir hennar eru einstakar í sinni röð og bókin, sem prýdd er hundruðum ljósmynda, ber þeim fagurt vitni.

Elstu klæðin eru frá því seint á 14. öld, nokkur frá því um eða eftir siðaskipti en hið yngsta er frá 1677. Níu klæðanna íslensku eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands en sex eru varðveitti í erlendum söfnum, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi.

Refilsaumur er gömul ensk-norræn útsaumsgerð sem varðveittist á Íslandi. Klæði með refilsaum voru framan af frásagnarverk og kunnasta refilsaumsáklæðið er að líkindum refillinn í Bayeux í Frakklandi sem lýsir innrás Normanna í Englandi 1066.

Íslensku klæðin eru nánast öll kirkjuleg verk, en í ýmsum þeirra eru sagðar sögur – svo sem af Maríu mey, heilögum Marteini og Jóhannesi postula.

Í klæðunum eru varðveitt einhver stórbrotnustu listaverk okkar frá fyrri öldum og þau hafa sérstöðu í alþjóðlegu samhengi. Klæðin bera ekki síst vitni um menningarstarf kvenna á fyrri tímum. Með bókarheitinu er vísað til umsagnar um elstu nafnkunnu hannyrðakonu íslenska, Ingunni lærðu á Hólum á 11 öld, sem ekki aðeins kynnti guðsdýrð í orðum heldur og með verkum handanna.

Lilja Árnadóttir fyrrverandi sviðstjóri Þjóðminjasafnsins og samstarfskona Elsu til margra ára, lauk við verkið og bjó til prentunar.

Sigrún Sigvaldadóttir hjá Hunangi hannaði bókina.