Niðurstöður

  • Ævisögur

11.000 volt

Þroskasaga Guðmundar Felix

Guðmundur Felix missti báða handleggi í skelfilegu slysi aðeins 25 ára gamall. Barátta hans hefst þó mun fyrr, því stór áföll hafa mætt honum frá fyrstu æviárum. Í þroskasögunni 11.000 volt fá lesendur rafmagnaða rússíbanareið í gegnum líf Guðmundar Felix og verða m.a. vitni að langþráðum...

Á veraldarvegum

Heillandi endurminningar Sverris Sigurðssonar um ævintýralegan lífsferli hans. Sverrir, segir frá ætt og uppruna en hann var fysti Íslendingurinn til að ljúka arkitektanámi í Finnlandi. Um áratugaskeið starfaði hann í Miðausturlöndum og Afríku sem arkitekt og síðar sem starfsmaður Alþjóðabankans. Sérlega vel skrifuð og áhugaverð bók sem vermir hjartarætur lesandans.

Barnið í garðinum

Áhrifamikil saga manns sem tekst að snúa baki við erfiðum uppvexti. Dag einn ákveður Sævar Þór að nú sé nóg komið, hann yfirgefur heim óreglu og lyga og leitar sér hjálpar. Hann er einn fárra íslenskra karlmanna sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og opnað sig um það og hryllilegar afleiðingar þess. Upprisusaga af þjáningu, þrautseigju, fyrirgefningu og von.

Eyþór Stefáns­son tónskáld Ævi­saga

Eyþór Stefánsson (1901-1999) bjó alla ævi á Sauðárkróki og var mikilvirkur í menningarlífi Skagafjarðar, sérstaklega á sviði leiklistar og tónlistar. Eftir hann eru mörg þekkt sönglög. Bókin gefur einkar gott yfirlit um ævi Eyþórs og fjölþætt menningarlíf á Sauárkróki á hans tíð.

Ég átti flík sem hét klukka

Endurminngar Ragnheiðar Jónsdóttur

Ragnheiður Jónsdóttir er f. 1935 á Svertingsstöðum í Miðfirði og alin þar upp í torfbæ. Hún er yngst 11 systkina sem öll komust til fullorðinsára og fengu menntun umfram skyldu. Lesa má um búskaparhætti áður en tæknin ruddi sér til rúms. Ævi foreldra hennar eru gerð skil og systkina hennar. Ragnheiður starfaði sem kennari og bókasafnsfræðingur.

Fjórar systur

Saga rússnesku keisaradætranna

Í þessari margrómaða sagnfræðiriti er brugðið upp lifandi myndum af stuttri ævi rússnesku keisaradætranna, Olgu, Tatjönu, Maríu og Anastasíu. Rúmri öld eftir andlát sitt fá þær loks rödd – með innsýn í dagbækur þeirra og einkabréf. Við kynnumst líka fjölskyldu þeirra, veikri móður, bróður sem þjáðist af dreyrasýki og áhrifum furðumannsins Raspútíns.

Guðfaðir geðveikinnar

Úr dagbókarslitrum, minningarbrotum og skjalfestum heimildum

Höfundur rekur sögu geðheilbrigðisþjónustu á Akureyri og nágrenni, umbúðalaust og án vafninga. Ýmis atvik sýna óvænta fordóma gagnvart geðsjúkdómum, jafnvel þar sem þeirra var síst von. En jafnframt er hér að finna áhugaverða ættar- og ævisögu höfundar. Höfundur hefur áður sent frá sér ljóðabækur auk þýðinga á ritum um geðheilbrigðismál.

Gunni Þórðar

Lífssaga

Lífshlaup Gunnars Þórðarsonar er í senn furðulegt og stórkost­legt. Fáir núlifandi íslenskir tónlistarmenn komast með tærnar þar sem hann hefur hælana. Þetta er saga um strák sem kemur suður og verður fljótt fremsti dægurtónlistarmaður landsins og nýtur virðingar og elsku þjóðarinnar. Svo fær hann nóg af dægurtónlistinni og snýr sér að klassík og óperusmíð með sama árangri.

Hanna Kjeld

Lífshlaup í ljósi og skugga

Hanna Kjeld er fædd og uppalin í Innri-Njarðvík og bjó um tíma í Færeyjum. Hún fluttist ung til Hafnarfjarðar, þar sem hún hefur búið alla tíð síðan. Hanna var fyrst við nám í Flensborgarskólanum, en síðar varð skólinn vinnustaður hennar í tæpa fimm áratugi. Í þessari frásögn sinni rekur hún eitt og annað sem á daga hennar hefur drifið á lífshlaupinu.

Hákarla- Jörundur

Ævisaga Jörundar Jónssonar hákarlaformanns

Jörundur Jónsson fór sem fátækur unglingur að heiman frá Kleifum í Ólafsfirði. Honum tókst að brjótast úr hlekkjum fátæktar og og verða sjálfstæður útgerðarmaður. Hann efnaðist og árið 1862 settist hann að í Hrísey með fjölskyldu sinni. Þar hélt velgengni hans áfram og Jörundur gat sér orð fyrir að vera einn fengsælasti hákarlaveiðimaður landsins, áræðinn og farsæll skipstjóri.

Ilmreyr

Móðurminning

Ilmreyr er kveðja frá dóttur til móður en um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu lífsstríð sitt við úthafsölduna vestur á fjörðum. Í bókinni vefast sjálfsævisöguleg efnistök saman við sagnfræði, þjóðfræði, skáldskap og skemmtun. Hér segir frá samspili kynja og kynslóða, bernskubrekum, hversdagslífi, ævintýrum, ástum og mögnuðum örlögum.

Jón Sverrisson

Langferðamaður úr Meðallandi

Endurminningaþættir Jóns Sverrissonar, fyrrum yfirfiskimatsmanns í Vestmannaeyjum, voru fyrst birtir sem röð greina í Lesbók Morgunblaðsins árið 1960. Þetta efni vakti athygli, ekki síst ævintýralegar frásagnir af svaðilförum sögumanns og erfiðri lífsbaráttu gamla samfélagsins. Í þessari bók er ævi Jóns rakin en þessum þáttum hans er fléttað inn í frásögnina.

Kristinn og Þóra

Rauðir þræðir

Kristinn E. Andrésson og Þóra Vigfúsdóttir voru áhrifamikil í íslenskri pólitík og menningarlífi. Þau trúðu á drauminn um framtíðarríki kommúnismans en létu hugsjónir sínar stundum blinda sig. Hér er m.a. byggt á dagbókum og einkaskjölum sem sýna hugsanir þeirra og skoðanir en ekki síður ástina sem veitti þeim skjól fyrir árásum og gagnrýni.

Læknirinn í Engla­verksmiðjunni

Saga Moritz Halldórssonar

Eftir mikla heimildaleit tókst Ásdísi Höllu að svipta hulunni af ævintýralegu lífshlaupi manns sem átti sér stóra drauma og fjölskylduleyndarmálum sem aldrei áttu að verða afhjúpuð. Inn í söguna fléttast mestu fjöldamorð í sögu Danmerkur, sjálfstæðisbarátta Íslendinga og líf Vestur-Íslendinga.

Markús

Á flótta í 40 ár. Öðruvísi Íslandssaga

Jón Hjaltason sagnfræðingur notar ótrúlega sögu útlagans Markúsar Ívarssonar til að varpa ljósi á lífsaðstæður á 19. öld og tekst á við goðsagnir. Máttu fátækir giftast? Hvað með „falleraðar“ konur? Alræði bænda? Voru einstæðar mæður réttlausar? Fjallað er um tukthús og böðla, ótrúlegar skyldur presta, hór, legorð og faðernispróf 19. aldar.

Með grjót í vösunum

Bókin geymir minningar um horfinn tíma og svipmyndir af eftirminnilegu fólki á Skagaströnd, í Grindavík og víðar. Þetta er mikilsverð og bráðskemmtileg heimild um horfinn heim og harða lífsbaráttu sem lögð var á ungar herðar um miðja síðustu öld.

Minn hlátur er sorg

Ævisaga Ástu Sigurðardóttur

Ásta var skapheit og ástríðufull listakona sem bjó yfir miklum hæfileikum, en ljós og skuggar tókust á um líf hennar og sál. Hún var dáð og fyrirlitin, elskuð og fordæmd. Hennar biðu um síðir bitur örlög. Í þessari einstæðu ævisögu er lífsþorsta, brestum og óblíðri ævi Ástu Sigurðardóttur lýst af næmri samkennd og innsæi.

Rætur

Á æskuslóðum minninga og mótunar

Ólafur Ragnar Grímsson sýnir hér nýja hlið á manni sem flestir telja sig þekkja vel. Meitluð mynd, sannfærandi, hreinskilin og persónuleg. Hér leitar Ólafur upprunans og svara við fjölmörgum spurningum: Hvað markaði brautir lífsins? Hverjir mótuðu strákinn að vestan? Hvar er innri mann að finna?