Niðurstöður

  • Una útgáfuhús

Dagatal

Sögur á einföldu máli

Dagatal geymir níutíu og eina sögu á einföldu máli. Í stuttum og aðgengilegum frásögnum er dregin upp mynd af íslenskum veruleika allt árið um kring. Dagatal er sjálfstætt framhald af Árstíðum sem hefur notið mikilla vinsælda. Bókin nýtist jafnt til kennslu og yndislestrar.

Kvár

Kvár er heimildarmyndasaga um að vera kynsegin; að upplifa sig hvorki karlkyns né kvenkyns, hvort tveggja í senn eða eitthvað allt annað. Þetta er ein fyrsta bókin um þetta efni sem er gefin út á íslensku. Hún er jafnframt fyrsta íslenska heimildarmyndasagan. Sagan er byggð á viðtölum við sex kvár um reynslu þeirra og skoðanir.

Máltaka á stríðstímum

Máltaka á stríðstímum er frásögn manneskju sem fylgist með stríði í heimalandi sínu úr fjarlægð. Hennar eigin þjóð, Rússar, hervæðist og ræðst inn í Úkraínu. Andstaða höfundar við stríðsreksturinn vekur margslungnar tilfinningar og spurningar sem glímt er við í bókinni. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Ókyrrð

Leikrit

Ókyrrð er gamanleikur um háska í háloftunum. Leikritið gerist í flugvél á tímum heimsfaraldurs og hverfist um fjórar persónur sem allar stefna í ólíkar áttir. Það er ókyrrð í lofti í þessu ærslafulla verki sem fjallar um þrána eftir jafnvægi og óuppfylltar óskir um að hafa stjórn á eigin tilveru, í heimi þar sem ekkert lætur að stjórn.

Sápufuglinn

Sápufuglinn hefur að geyma þrjár sögur um losta og valdadýnamík í samböndum, flókna kynverund og arfgengan hæfileika til að ferðast um í tíma. María Elísabet Bragadóttir sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu bók Herbergi í öðrum heimi. Sápufuglinn kemur róti á huga lesanda með djúpu innsæi höfundar, óbeisluðu hugmyndaflugi og beittum húmor.

Skurn

Ung stúlka stríðir við svefnleysi eftir að tvíburasystir hennar lendir í slysi. Hún reynir að dreifa huganum með því að hugsa um allt sem er kringlótt. Skurn er fíngerð ljóðsaga um aðskilnað og áföll, styrk og viðkvæmni, og eftir stendur spurningin hvort hægt sé að skilja sársauka annarra.

Snuð

Snuð er óvenjuleg og ögrandi skáldsaga, knúin áfram af frásagnargleði og gáskafullum húmor. Undir yfirborðinu kraumar óþol gagnvart raunveruleikanum sem er ef til vill ekki jafn áreiðanlegur og ætla mætti.

Takk fyrir komuna

Hótel Saga geymir ýmis leyndarmál og ævintýri, þar blandast fólk og aðrar furðuverur eins og skyr og hafragrautur. Nokkrir meistaranemar í ritlist, með aðstoð ritstjóra sinna, töfra hér fram ljóð og sögur sem verða að ljúffengum hræringi með svignandi veisluborðum, klámi, daðri, óvæntum uppákomum, dulúð og dauðum hana.

Urðarflétta

Fíngerð og dulmögnuð prósaljóð um náttúruna sem býr innra með okkur, viðkvæm augnablik, horfna skóga, uglur sem grípa nóttina, ástvini í handanheimi, eggaldin sem vex úr koki, kreppta hnefa, sár sem aldrei gróa, fljúgandi þakplötur, þeysandi halastjörnur og byltingar sem fæðast í móðurkviði. Urðarflétta er önnur ljóðabók Ragnheiðar Hörpu.

Útlínur liðins tíma

Minningabrot eins fremsta rithöfundar 20. aldarinnar, Virginiu Woolf, sem hér birtast eru vitnisburður um hvernig endurtekin högg dauðans, kynferðisbrot og önnur áföll í bernsku mörkuðu persónuleika hennar fyrir lífstíð. Soffía Auður Birgisdóttir þýðir af vandvirkni og ritar einnig ítarlegan eftirmála.