Ljóð og leikhandrit

Tálknfirðingur BA

Ólafur Sveinn Jóhannesson sló í gegn með ljóðabók sinni Klettur – ljóð úr sprungum, sem fékk afbragðs dóma og var tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna, Maístjörnunnar. Hér heldur hann áfram að yrkja um sína heimabyggð af einlægni og dregur upp áhrifamiklar myndir af mannlífi og tilveru fyrir vestan af næmri tilfinningu og húmor.

Vandamál vina minna

Vandamál vina minna er fágætlega heilsteypt og meitluð ljóðabók þar sem Harpa Rún Kristjánsdóttir tekst á við það hlutskipti að vera kona, að vera manneskja, að vera vinur ... Myndvísi hennar og traust tök á ljóðmáli leiða til þess að ljóð hennar tjá hughrif og kenndir á óvenju áhrifamikinn hátt og verða lesendum minnisstæð.

Vöggudýrabær

Vöggudýrabær er skáldleg umfjöllun um þær konur sem nauðbeygðar sendu afkvæmi sín á vöggustofur og þau börn sem þar voru vistuð framan af barnæskunni. Kristján Hrafn Guðmundsson yrkir hér af skáldlegu innsæi, húmor og þekkingu um hlutskipti móður sinnar og ömmu og bregður um leið birtu á þjóðfélag þessara tíma og tíðaranda.

Þankar

Þankar Óla Jóhanns Ásmundssonar eru einstakir og eftirminnilegir. Sumir hafa orðið til eftir miklar pælingar en aðrir dottið af himnum ofan, komið ósjálfrátt upp í huga höfundar. Allt frá smellnum orðaleikjum til djúprar speki sem einatt varpar óvæntu ljósi á mannlega tilveru. Bók sem vekur umræðu og hentar öllum aldurshópum.

Þar sem malbikið endar

Í þessari ævintýralegu bók stíga borg, náttúra og mannlíf saman dans, ýmist hægan eða trylltan, angurværan eða ágengan. Tónninn er bæði hlýr og beittur í tæpitungulausum ljóðum sem einkennast af húmor og skarpri sýn á samfélag og samtíð. Það er langt síðan Magnea hefur sent frá sér skáldskap en í bókinni eru yfir fjörutíu ljóð frá löngu tímabili.

Þú

Halla Gunnarsdóttir yrkir hér um fæðingu og fyrstu tilfinningaþrungnu vikurnar í lífi móður og barns. Hún lýsir átökunum, sársaukanum og gleðinni en inn á milli skjóta upp kollinum kómískir atburðir sem eiga sér stað mitt í þessu tilfinningaróti.