Fræðirit, frásagnir og handbækur

Hetjur fyrri alda - Fjórar gleymdar fornsögur

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík, handrita- og textafræðingur, hefur unnið til prentunar fjórar áður óaðgengilegar fornsögur, sem einungis eru til í handritum. Sögusviðið er fjölbreytt og sögurnar skemmtilegar. Rætur sumra þeirra ná langt aftur í aldir. Það er fengur í þessari bók fyrir alla sem unna fornsögum okkar Íslendinga.

Huldukerfi heimsbókmenntanna

Skyggnst inn í bókakost íslenska esperantosambandsins

Huldukerfi heimsbókmenntanna er safn pistla um valdar bækur í einstöku bókasafni íslensku esperantohreyfingarinnar. Pistlarnir varpa ljósi á fjölskrúðuga bókaútgáfu á alþjóðamálinu og þá ólíku hugmynda- og menningarstrauma sem borist hafa hingað til lands með útgáfustarfsemi esperantista sem nær aftur til ársins 1887.

Jökulsævintýrið

Sagan af því er Loftleiðamenn björguðu bandarískri skíðaflugvél af Vatnajökli árið 1951

Þegar erfiðleikar steðjuðu að flugfélaginu Loftleiðir um miðja 20. öld tóku Loftleiðamenn sig til og grófu upp úr Vatnajökli DC-3 flugvél sem Bandaríkjaher hafði orðið að skilja eftir ári fyrr við björgun áhafnarinnar á Geysi. Hér er saga leiðangursins rakin í máli og myndum með dagbókarfærslum Alfreðs Elíassonar og ljósmyndum Árna Kjartanssonar .

Sönn sakamál Kentucky-mannætan

Sönn saga um útlaga, morðingja og mannætu

Árið 1850 hélt Boone Heim á vit gullæðisins í Kaliforníu eftir að hafa skilið við konu sína og komist margsinnis í kast við lögin. Frændi hans einn ætlaði að slást í för með honum en þegar sá skarst úr leik á síðustu stundu missti Heim stjórn á sér og drap hann. Hann var í kjölfarið lagður inn á geðveikrahæli. Honum tókst að sleppa út af hælinu.

Rangárþing - Safn til sögu Landnám í Rangárþingi

Fjallað er um það þegar 43 landnemar settust að í Rangárþingi fyrir um 1100 árum. Umfjöllunarefnin eru: hvernig land sýslunnar mótaðist jarðsögulega, gróður á landnámsöld, hellar í sýslunni, skip landnema og hvað var flutt, hvernig fólkið kom sér fyrir, lífsafkomu þess, búfénað, trúariðkanir og mótun stjórnsýslu og valdakerfis.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Listasaga leikmanns

Listaannáll 1941–1968 eftir Kristján Sigurðsson póststarfsmann í Reykjavík

Á árunum 1941 til 1968 hélt Kristján ítarlegar dagbækur – nokkurs konar listaannál um myndlistarlífið í Reykjavík. Á því tímabili sá hann allar sýningar íslenskra og erlendra listamanna, skráði skoðanir sínar á þessum sýningum, viðbrögð gagnrýnenda og annarra álitsgjafa við sýningum.

Líkaminn geymir allt

Hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll

Áföll geta haft gríðarleg áhrif á andlega líðan, tilfinningar, skynjun og félagsfærni, fjölskyldur þolenda og jafnvel næstu kynslóðir, en um leið víðtækar afleiðingar fyrir heilsuna. Í þessari heimsþekktu bók eru raktar sláandi staðreyndir um eftirköst áfalla og kynntar leiðir til bata sem reynst hafa skilvirkar til að lækna huga, heila og líkama.

Lítil bók um stóra hluti

Hugleiðingar

Hér tekst höfundur á við stórar spurningar á sinn hátt. Stundum með stríðnislegu glotti eða blíðu brosi, stundum með ögrandi og nýstárlegum hugmyndum og stundum með alvöruþunga og skarpri sýn. Þórunn er fundvís á óvæntar tengingar, hispurslaus og fyndin, angurvær og ljóðræn, margbrotin og einlæg, hún sjálf, engri lík.