Fræðibækur og rit almenns efnis

Spurt og svarað

Aðferðafræði spurningakannana

Spurningakannanir eru mikilvægt rannsóknartæki sem beitt er í nánast öllum þeim greinum sem fjalla um manninn á einn eða annan hátt. Meginstoðir þeirra – þ.e. spurningalistar og úrtakið sem svarar þeim – er aðalviðfangsefni bókarinnar, sem er bæði ætluð þeim sem nota spurningakannanir og þeim sem búa þær til.

Stórasta land í heimi

Þrautabók um Ísland

Ísland er sannarlega skrítinn og skemmtilegur hrærigrautur, í senn heitt og kalt, lítið og stórt o.s.frv. – og þjóðin sem byggir það er sömuleiðis alveg sérstök, fámenn en samt svo áberandi. Bókin er full af heilabrotum, fróðleik og skemmtun og geymir næstum því allt sem gott er og gaman að vita um þetta stórasta land í heimi. Einnig til á ensku.

Strand í gini gígsins

Surtseyjargosið og mannlífið í Eyjum

Sursteyjargosið sem hófst 14. nóvember 1963 hafði mikil áhrif á Vestmannaeyinga. Í þessari mögnuðu bók er brugðið upp einstakri mynd af mannlífinu í Eyjum á árum Surtseyjarelda og lýst ótrúlegum svaðilförum tengdum þeim sem fæstar hafa verið færðar í letur áður. Höfundur bókarinnar gæðir frásögnina lífi með fjörmiklum stílsmáta sínum.

Stund milli stríða

Saga landhelgismálsins, 1961-1971

Saga landhelgismálsins er þjóðarsaga. Hún er saga baráttu um lífshagsmuni og þjóðarheiður. Höfundur segir frá litríkum köppum og æsilegum atburðum, bæði á sjó og landi. Jafnframt setur hann atburði og ákvarðanir í samhengi, dregur ályktanir en eftirlætur lesandanum líka að mynda sér eigin skoðanir. Hér er þessi saga rakin í máli og myndum.

Sýklafræði og sýkingavarnir - tilraunaútgáfa

Í bókinni er fjallað um mismunandi tegundir örvera, sérkenni þeirra og byggingu, en sérstök áhersla lögð á sjúkdómsvaldandi örverur auk ítarlegrar umfjöllunar um sýkingavarnir. Bókin er ætluð nemendum í heilbrigðisvísindum á framhaldsskólastigi en jafnframt öllum þeim sem vilja fræðast um grundvallaratriði sýklafræði og sýkingavarna.

Sýnisbók þess að Ísland er ekki barbaraland

Specimen Islandiæ non barbaræ er bókmenntasögulegt rit, samið á latínu af Jóni Þorkelssyni (1697–1759) Skálholtsrektor. Markmið þess er að sýna hinum lærða heimi að Íslendingar séu menntuð bókmenntaþjóð. Sigurður Pétursson (1944–2020) þýddi verkið á íslensku en Hjalti Snær Ægisson bjó verkið til útgáfu. Útgáfan er tvímála og henni fylgja skýringar.

Saga Tímarit Sögufélags LX: 1 og 2 2022

Tímaritið Saga kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Efni þess tengist sögu og menningu landsins í víðum skilningi. Ritrýndar greinar og viðhorf mynda stærstu efnisþætti tímaritsins. Í Sögu birtast einnig ritdómar og ritfregnir um nýjar bækur er varða sögu, einkum Íslandssögu, og annað efni af sagnfræðilegu tagi. Ómissandi öllu áhugafólki um sögu.

Tíminn og trúin

Kirkjuárið og textaraðirnar

Sömu ritningartextar eru lesnir upp í kristnum guðsþjónustum um heim allan árið um kring og lagt út af þeim í prédikun, söng og bæn. Segja má að þessir textar birti tiltölulega skýra mynd af kristnum hugmyndaheimi. En hvernig byrjaði þetta allt saman? Hvers vegna urðu textaraðirnar kjölfesta kirkjuársins og hver eru innbyrðis tengsl þeirra?

Um skáldskaparmenntina

Um skáldskaparmenntina er safn ritgerða eftir Árna Sigurjónsson um bókmenntafræði og mælskufræði. Þær varpa m.a. ljósi á verk Halldórs Laxness, Níelsar skálda, og að ferðafrásögnum Íslendinga um Sovétríkin á árunum milli heimsstyrjalda. Þá eru grunnhugtök mælskufræði kynnt en sú grein skipaði veglegan sess í skólum Vesturlanda í margar aldir.

Unser Leben mit Pferden

Í þessari einstöku og fallega myndskreyttu bók, er talað um hesta frá ýmsum sjónarhornum. Höfundar skrifa út frá hjartanu um reynslu sína af hestum og lífi sínu með þeim. Sagt er frá eftirminnilegum hestum og inn í frásögnina er fléttað fræðslu, sögum, og því nýjasta sem uppgötvað hefur verið um hesta. Bókin er fáanleg á íslensku, ensku og þýsku.

Út á Brún og önnur mið

útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930

Í bókinni er rekin saga bændaútgerðar í Vogum og á Vatnsleysuströnd allt frá elstu fáanlegu heimildum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar vélbátar höfðu leyst árabátana af hólmi. Sagt er frá áhrifum Viðeyjarklausturs á svæðinu, konungsútgerð, spítalafiski, sjósókn, netaveiðideilum, saltfiskverkun sjóbúðum og þilskipaútgerð.