Fræðirit, frásagnir og handbækur

Upp á punkt

Upprifjun grunnþátta í stærðfræði

Ný og endursk. útgáfa sem ætluð er nemendum sem eru að hefja nám í framhaldsskóla en skortir leikni í stærðfræði. Við efnisval var tekið mið af námskrám efstu bekkja grunnskóla og grunnáfanga framhaldsskóla með það fyrir augum að brúa bilið þar á milli. Nýjung er mikill fjöldi QR-kóða sem opna myndbönd um efnið og leiðbeina um lausnaraðferðir.

VEISLUMATUR LANDNÁMSALDAR

Kristbjörn Helgi Björnsson sagnfræðingur hefur rannsakað matartilvísanir og matarvenjur í Íslendingasögunum. Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari leitaði einnig fanga víða og setur hér fram skemmtilegar uppskriftir að veislumat landnámsaldar Karl Petersson, einn allra fremsti matarljósmyndari landsins fangar svo útkomuna með linsuna að vopni.

Verkefna- og gæðastjórnun fyrir byggingagreinar

Handbók stjórnenda við mannvirkjagerð frá stofnun fyrirtækja til afhendingar mannvirkja

Þessi bók er hugsuð fyrir nemendur í byggingagreinum sem og stjórnendur við mannvirkjagerð. Að sögn höfundar á gæðastjórnun að vera einföld, leiðbeinandi og upplýsandi fyrir stjórnendur, starfsfólk, viðskiptavini og birgja þannig að þessir aðilar þekki til hlítar ábyrgð, hlutverk, væntingar og kröfur hver annars.

Vesturbærinn

Húsin - Fólkið - Sögurnar

Vesturbærinn á sér um margt sérstaka sögu. Hér er lítillega tæpt á nokkrum þáttum hennar og sjaldnast er fólkið í hverfinu langt undan. Margir eru kallaðir til; innfæddir, brottfluttir og aðfluttir Vesturbæingar og eflaust vakna einhvers staðar sterkar endurminningar. Vesturbærinn er fróðlega bók og fyndin og sannarlega þess virði að lesa.

Yfirrétturinn á Íslandi: Dómar og skjöl III. 1716‒1732

Mál sem komu fyrir dóminn voru margvísleg. Tvær konur voru sakaðar um að deyða börn sín í fæðingu og dæmdar til dauða. Snæbjörn Pálsson uppnefndi kaupmanninn í Dýrafirði Lúsa-Pétur sem dró mikinn dilk á eftir sér. Auk þess birtast hér ásakanir um falskt þingsvitni og embættismissi sýslumanns, deilur um reka, þjófnaðarmál og drykkjulæti í kirkju.

Þættir úr sögu Kjósar

Í bókinni dregur höfundur upp svipmyndir af því samfélagi sem lengi var við lýði í Kjósarhreppi. Verkið skiptist í 15 þætti sem fjalla um ólík viðfangsefni en saman gefa þeir heillega mynd af sögu byggðarlagsins. Margar ljósmyndir prýða bókina, bæði eldri myndir með mikið sögulegt gildi og nýlegar litmyndir af bæjum og landslagi í Kjós.