Þýdd skáldverk

22.11.63

Hvað ef maður gæti farið til baka í tíma og breytt gangi sögunnar? Hvað ef vatnaskilin sem maður gæti breytt væri morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta? Árið 2011 heldur enskukennarinn Jake Epping í ævintýralegan leiðangur með það fyrir augum að koma í veg fyrir morðið á JFK 22. nóvember 1963. – Eitt af meistaraverkum konungs sálfræðitryllanna

Aðeins ein áhætta

Ambra Winter er blaðamaður. Henni er falið að skrifa um atburði í bænum Kiruna, nyrst í Svíþjóð. Þegar hún kemur í þetta litla samfélag vakna óþægilegar minningar. En það eru fleiri en hún sem þurfa að horfast í augu við fortíð sína. Meðal annars sérsveitarmaðurinn fyrrverandi sem sest hefur að í kofa úti í skógi og hún laðast að ...

John Adderley - fyrsta bók Að leikslokum

Þegar sænskættaði FBI-fulltrúinn John Adderley vaknar á sjúkrahúsi í Baltimore með skotsár á brjósti veit hann að hann er stálheppinn að vera á lífi. Á sömu sjúkrastofu liggur maðurinn sem beindi byssu að honum sólarhring áður. Að leikslokum er fyrsta bókin um John Adderley. Bókin var valin besta nýja glæpasagan í Svíþjóð 2020.

Að vestan

Íslensk-kanadískar smásögur

W. D. Valgardson, David Arnason og Kristjana Gunnars hafa tekið margvíslegan þátt í að móta ímynd íslenska frændgarðins í Kanada en eru þó fyrst og fremst kanadískir höfundar. Með sögum sínum veita þau innsýn í margbreytilegt líf og hugsun vestan hafs. Um leið upplýsa sögurnar í bókinni lesendur um mikilvægi og grósku smásagnahefðarinnar í Kanada.

Allt eða ekkert

Lexia Vikander finnst hún ekki eiga heima meðal tággrannra kvenna í auglýsingageiranum sem telja kalóríur í hvert mál. Nýr eigandi hefur tekið við fyrirtækinu sem hún vinnur hjá og það er altalað að mörgum verði sagt upp. Til að hressa sig við bregður Lexia sér á bar. Þar sest við hliðina á henni myndarlegasti maður sem hún hefur séð ...

Beta frænka

Beta frænka er saga heitra tilfinninga sem stýra gerðum manna. Hér er fulltrúi tryggðar og hollustu og takmarkalausrar sjálfsafneitunar. Önnur persóna er holdgervingur öfundar og kolsvarts haturs og hin þriðja er spillingunni vígð. Þarna birtast sem sagt tvö meginöfl sálarlífsins – ást og hatur – Eros og Þanatos – engill og djöfull.

Brotin bein

Morð á ungri vændiskonu og kornabarn sem finnst yfirgefið sama vetrarkvöldið er upphafið að erfiðri rannsókn Kim Stone – sem kemst aftur í kynni við manneskju frá sinni eigin hræðilegu æsku. Þegar þrjár vændiskonur í viðbót finnast myrtar í Svörtulöndum í röð árása gera Kim og liðið hennar sér grein fyrir því að hér er sjúkur raðmorðingi að verki.

Böðulskossinn

Malin Fors er komin aftur til Linköping eftir viðburðaríkan tíma í Bangkok. Hún er varla búin að koma sér fyrir þegar flugvöllurinn í Linköping verður vettvangur stærstu gíslatöku í sögu Svíþjóðar. Um sumarið skellur á grimmileg ofbeldisalda í Linköping. Malin og félagar eltast við morðingja sem virðist alltaf vera skrefi á undan ...

Dauðinn og mörgæsin

Sögusviðið er Úkraína eftir fall Sovétríkjanna. Viktor, lánlaus og hæglátur rithöfundur, býr í lítilli blokkaríbúð ásamt þunglyndri mörgæs sem hann hefur tekið í fóstur af fjárvana dýragarði Kiev. Dag nokkurn ræður dagblað hann til að skrifa minningargreinar og skyndilega virðist veröldin brosa við Viktori. „Tragíkómískt meistaraverk.“ D.Telegraph