Þýdd skáldverk

Síða 1 af 6

Atburðurinn

"Árum saman hefur þessi atburður fylgt mér eins og skugginn. Þegar ég les um fóstureyðingu í skáldsögu fyllist ég ósjálfrátt geðshræringu, rétt eins og orðin umhverfist á samri stund í ofsafengna tilfinningu." Nóbelsverðlaunaskáldið Annie Ernaux er ein mikilvægasta rödd samtímabókmennta í Frakklandi.

Barnæska

Ona býr með foreldrum sínum í Amsterdam þegar Þjóðverjar hertaka Holland í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari. Fjölskyldan er í óða önn að undirbúa flutning til Palestínu þegar hún er skyndilega vakin upp um miðja nótt, flutt nauðug í lest og að lokum í fangabúðirnar í Bergen-Belsen. Gyrðir Elíasson íslenskaði.

Brostin jörð

Ung urðu Beth og Gabriel ástfangin og áttu saman dásamlegt sumar. Áratug síðar býr Beth enn í sveitinni, gift góðum manni, þegar æskuástin snýr aftur. Óútkljáð fortíðin varpar dimmum skugga og eldfim leyndarmál knýja Beth til að taka erfiðar ákvarðanir. Hjartnæm, grípandi og spennuþrungin saga þar sem sterkar tilfinningar ýta fólki út á ystu nöf.

Byrgið

Sögur, kjarnyrði, brot

Þessi bók geymir úrval fjölbreyttra styttri texta sem Franz Kafka, einn áhrifamesti höfundur 20. aldar, lét eftir sig óútgefna er hann lést árið 1924: bráðskemmtilegar örsögur, smásögur og nóvellur, kjarnyrði og sögubrot. Safnið sýnir vel tök Kafka á knöppum frásögnum en hann var frumkvöðull í ritun örsagna. Ástráður Eysteinsson skrifar eftirmála.

Dauðinn og stúlkan

Fyrir tuttugu og fimm árum átti hin átján ára Vinca í leynilegu ástarsambandi við kennara sinn. Nóttina sem hún hvarf áttu þau stefnumót. Manon, Thomas og Maxime hafa ekki talað saman síðan þau útskrifuðust fyrir öllum þessum árum en hittast aftur á bekkjarmótinu. Mun sannleikurinn um það sem raunverulega gerðist þessa örlagaríku nótt koma í ljós?

Don Juan

sextán kviður

George Gordon Byron (1788-1824) er eitt virtasta skáld Breta fyrr og síðar og eru kviðurnar um Don Juan það framlag hans til heimsbókmentanna sem hvað glæsilegast þykir. Don Juan er piltur af spænskum lágaðli alinn upp af strangri og siðavandri móður. Eftir að hafa valdið safaríku hneyksli á heimaslóð er hann sendur úr landi sér til betrunar.

Einleikur

Axel Steen er orðinn yfirmaður öryggismála hjá alþjóðlegum fjárfestingabanka. Hann undirbýr sumarfrí með eiginkonu sinni og dóttur þegar honum er falið að reka svo lítið beri á mann sem uppvís er að fjárdrætti og án þess að lögreglan verði kölluð til. Þá fer í gang atburðarás í heimi þar sem peningar drottna og þögnin er gulls ígildi.

Ekkert

Það rennur upp fyrir Pierre Anthon að ekki taki því að gera neitt, af því að ekkert hafi þýðingu þegar allt komi til alls. Hann kemur sér fyrir uppi í tré og ögrar þaðan bekkjarsystkinum sínum. Þau reyna að sannfæra hann um tilgang lífsins með aðferðum sem fara að lokum út í öfgar. Verðlaunabók sem gefin hefur verið út á 36 tungumálum.

Ekki er allt sem sýnist

Carl og Helene þráðu að komast i langt frí til að endurnýja sambandið. Þau fundu á netsíðum draumahús í Kaliforníu og höfðu húsaskipti við par sem vildi dvelja sumarlangt í einbýlishúsinu þeirra í sænska skerjagarðinum. En þegar þau koma til Kaliforníu bregður þeim í brún. Þetta var ekki húsið sem þau höfðu hrifist af á netinu.