Íslensk skáldverk

Armeló

Elfur hatar að ferðast. Einhverra hluta vegna er hún samt komin hingað, til þessa óspennandi smábæjar, með Birgi. Nema Birgir er allt í einu horfinn, ásamt bílnum og öllum farangrinum. Hún skilur þetta ekki, hann er ekki beint hvatvís. En það var eitthvað sem hann sagði kvöldið sem þau rifust í fyrsta skipti. Kvöldið áður en þau komu til Armeló.

Babúska

Reimleikar og voðaverk

Ung stúlka í Reykjavík verður fyrir bíl og lætur lífið. Rússnesk stúlka, sem vinnur við skúringar, er eina vitnið að atburðinum. Norður í Urriðavík stendur öll sveitin á öndinni vegna dularfullra morða og reimleika. Tengjast þessir atburðir? Hallveig Thorlacius leysir gátuna í grípandi og spennandi frásögn sem er ekki laus við gráglettni.

Banaráð

Móðir og barn finnast myrt á heimili sínu í rólegri íbúðagötu í Gautaborg. Á dyrabjöllunni standa fjögur nöfn, þar á meðal nafn fyrrverandi heimilisföðurins Tyve sem er starfsmaður sænsku lögreglunnar. En hvar er hann niðurkominn? Og hvar er Mia?

Best fyrir

Framtíðin er ekki óskrifað blað í augum þeirra höfunda sem deila hér reynslu sinni. Í níu sannsögum er ferðast um tímann í gegnum heimaslátrun, átök við íslenska veðrið, skíðakennslu á Ítalíu, ástir, eftirpartí, undarlegt háttalag konu um nótt og súran kvíða samtímans. Hér er tekist á við kunnuglegan tilvistarótta og gefin fyrirheit um framhaldið.

Biluð ást

Nanna er látin – konan sem Jóhann Máni elskaði. Það var biluð ást. Hér segir frá harkalegum örlögum manns sem hafði margt til brunns að bera, var gæddur góðum gáfum, óvanalegu líkamlegu atgervi og hugdirfsku. En ástina kunni hann ekki að varast. Mögnuð bók eftir einn okkar fremsta höfund.

Blóðmeri

Kjartan Ómarsson virðist ósköp venjulegur maður, vel liðinn og viðkunnanlegur. Einn sólríkan dag fer hann í sund en skilar sér aldrei heim aftur. Það kemur öllum í opna skjöldu þegar lík hans finnst í blokkaríbúð sem hann hefur haldið leyndri fyrir konu sinni og kunningjum. Það sem verra er, Kjartan Ómarsson hefur verið myrtur á hrottafenginn hátt

Blóðmjólk

Í Blóðmjólk sogast lesandinn inn í vinkvennahóp sem verður fyrir miklu áfalli þegar ein þeirra deyr með hræðilegum hætti. Sjónarhornið flakkar á milli kvennanna þannig að lesandinn kynnist persónunum frá ýmsum hliðum. Hvað gerðist eiginlega? Og ef það var framinn glæpur, hver er hinn seki? Þessi skvísukrimmi fékk glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn.

Blóðsnjór

Gamall maður stingur af frá Hrafnistu. Hvert leið hans liggur veit enginn. Leiðarvísirinn er gömul bróðurminning sem engum er annt um nema honum. Það er verk sem þarf að klára áður en hann yfirgefur þetta jarðlíf, því sumar bernskuminningar hverfa aldrei. Blóðsnjór er saga um ást sem nær út fyrir gröf og dauða.

Borg hinna dauðu

Föstudagskvöld nokkurt í september yfirgefur hin 19 ára gamla Sigríður Bella Ólafsdóttir heimili sitt við Dragaveg. Hún segir engum hvert hún er að fara. Þegar hún skilar sér ekki heim hringja foreldrarnir á lögregluna. Það er eins og jörðin hafi gleypt dóttur þeirra. Spennan er yfirþyrmandi þegar Hörður Grímsson glímir við sitt flóknasta mál.

Ból

LínLín er ekki fisjað saman. Þrátt fyrir sáran missi og þung áföll stendur hún keik. En nú er komið að ögurstund: Náttúran fer hamförum við sælureitinn hennar í sveitinni. Einbeitt heldur hún þangað, til móts við minningarnar, leyndarmálin og sorgirnar stóru. Mögnuð saga um ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf, eldheitt verk frá snilldarhöfundi.

Dauðadjúp sprunga

Snjöll og áhrifarík spennusaga um ógn og ofbeldi, blekkingar og trúnað, fimmta og seinasta bókin um tvíeykið Áróru og Daníel. Áróru líður skár síðan lík systur hennar fannst eftir langa leit en morðmálið er enn óleyst. Peningaþvætti sem hún rannsakar reynist annað og meira, og brátt liggja þræðirnir á ný í Engihjallann, heim til systurinnar sem dó.

Dauði Francos

Árið 1975 fylgist Guðbergur með nokkurra vikna dauðastríði Francos og skrásetur í dagbók. Brot úr dagbókinni birtist á sínum tíma í Þjóðviljanum en hér má í fyrsta skipti líta skrásetninguna í heild sinni. Höfundur dregur upp einstaka mynd af endalokum einræðisherra og þeirri ringulreið sem skapast í spænsku samfélagi við yfirvofandi fráfall hans.

Davíð Wunderbar

Þrátt fyrir sakleysislega kápu er rétt að vara fólk við því að lesa þessa bók. Það er ekki nóg með að Starkaður Starkaðsson fari offari í þráhyggju sinni gagnvart mælingu tímans heldur finnur hann þörf fyrir að bregða fyrir sig ruddalegu orðfæri þegar hann ferðast djúpt niður í myrkur mannssálarinnar, til staða sem engum er hollt að heimsækja.

Deus

Skáldið Sigfús missir tökin á lífinu þegar hann finnur guð. Unglingurinn Ísabella glímir við stórar og flóknar tilfinningar. Blaðamaðurinn Andri Már þarf að fóta sig á nýjum og ókunnuglegum vettvangi. Örlög þeirra fléttast saman við áform nýsköpunarfyrirtækisins DEUS Technologies um að þróa trúarbrögð sem gervigreind.