Íslensk skáldverk

Andnauð

Árið 1990 leggur lögreglumaðurinn Kristján allt undir til að komast til botns í röð kynferðisbrota. Þrjátíu árum síðar finnst maður nær dauða en lífi í íbúð í Hafnarfirði. Munir í íbúðinni flækja mál lögreglukonunnar Láru. Við tekur æsispennandi kapphlaup við tímann þar sem Lára getur ekki treyst neinum, síst af öllu sjálfri sér.

Auðlesin

Bráðfyndin og beitt samfélagsádeila sem tekst á við þær stóru siðferðis- og sjálfsmyndarspurningar sem þúsaldarkynslóðin stendur frammi fyrir. Eru góðverk einhvers virði ef ekki er hægt að stæra sig af þeim á samfélagsmiðlum? Og hvað gerir „alvöru“ skáld þegar fé og frami bjóðast fyrir að skrifa froðukennda metsölubók?

Á eigin vegum

Sigþrúður er ekkja og vinnur fyrir sér með blaðburði. Hún er ein, fólkið hennar er horfið á braut, en djúpt í sálinni búa draumar um annað líf, annað land. Þessi vinsæla saga kom fyrst út 2006. Fyrir hana fékk Kristín Steinsdóttir Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Nú hefur leikgerð sögunnar verið sett á svið.

Breytt ástand

Frumlegar og áleitnar sögur Berglindar draga upp djarfa mynd af íslenskum samtíma. Þær ögra lesandanum og sýna að leiðin frá kyrrlátu reykvísku úthverfi yfir í jaðar samfélagsins er styttri en flesta grunar. „Ein sterkasta frumraun sem ég hef komist í.“ – Bergþóra Snæbjörnsdóttir rithöfundur.

Brimhólar

Í þessari áhrifaríku ástarsögu segir frá íslenskum strák og pólskri stelpu sem kynnast í litlu þorpi úti á landi. Þau ákveða að hittast einu sinni í viku í sandhólunum á ströndinni og lesa saman bækur. Yfir öllu ríkir kuldinn í íslenskri náttúru og hitinn sem finna má í pólskri ljóðlist.

Brotin

Grjóthörð glæpasaga eftir margverðlaunað leikskáld. Unglingsstúlka hverfur í skólaferðalagi á Þingvöllum. Tvær utangarðslöggur eru settar í málið: Dóra sem glímir við heilaskaða eftir vinnuslys og Rado sem er fallinn í ónáð vegna fjölskyldutengsla við pólska glæpaklíku. En hausinn á Dóru er óútreiknanlegur og vill bila á ögurstundum.

Dalurinn

Sif dvelur ein í afskekktum sumarbústað við ritgerðaskrif. Sem betur fer er æskuvinur hennar ekki langt undan og jafnvel ferðamaður í vanda veitir visst öryggi – þar til allt sveipast skyndilega óvissu og Sif veit ekki lengur hverju er hægt að treysta. Hér stígur fram nýr spennusagnahöfundur með grípandi sögu sem engin leið er að leggja frá sér.

Dauðaleit

Rannsóknarlögreglumaðurinn Halldór rannsakar hvarf stúlku í undirgöngunum í Hamraborg. Hann sér strax að málið er mjög líkt hvarfi besta vinar hans í sömu undirgöngum árið 1994. Vinurinn fannst aldrei og Halldór uppgötvar tengingu á milli ungmennanna tveggja. Skuggar fortíðar ásækja hann og enn á ný sér hann hluti sem aðrir sjá ekki.

Dáin heimsveldi

Steinar Bragi hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn frumlegasti höfundur landsins. Hér fer hann með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og torkennilegur hlutur birtist á himni. Síðasta skáldsaga Steinars, Truflunin, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Drepsvart hraun

Hröð og fimlega fléttuð spennusaga um dularfull mál og óhugnanleg áform, fjórða bókin um Áróru og Daníel. Þegar Áróra fréttir að ókunnugt barn segist vera systir hennar endurfædd bregður henni illa enda hefur hún leitað hennar í þrjú ár. Sama dag fær Daníel undarlegt kveðjubréf frá leigjanda sínum, dragdrottningunni, og síðan óþægilega heimsókn.

Eden

Málvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund. Hjá íbúum í nálægu þorpi kviknar óvæntur áhugi á málvísindum. Á fjörur söguhetju rekur handrit að ljóðabók fyrrverandi nemanda hennar sem fjallar um ást ungs karlmanns á eldri konu. Eden fjallar um mátt orðsins og ábyrgðina sem við berum.

Eitt satt orð

Á köldu októbersíðdegi sigla Júlía og Gíó, maður hennar, saman út í hinn sögufræga Geirshólma í Hvalfirði vegna verkefnis sem Júlía hefur tekið að sér. Hún snýr hins vegar þaðan aftur ein síns liðs. Hvað gerðist í kjölfar þess að hún yfirgaf manninn sinn á þessu eyðiskeri? Og svo virðist maðurinn horfinn af yfirborði jarðar.

Elsku sólir

Systurnar Ársól og Sunna þurfa að halda fyrirvaralaust til Spánar til að hitta móður sína sem er við dauðans dyr. Æskuvinkona móðurinnar slæst með í för en í Andalúsíu tekur við atburðarás sem engin þeirra átti von á. Elsku sólir er spennandi saga sem fer með lesanda um heillandi borgir og blómlegar sveitir Andalúsíu.