Íslensk skáldverk

Babúska

Reimleikar og voðaverk

Ung stúlka í Reykjavík verður fyrir bíl og lætur lífið. Rússnesk stúlka, sem vinnur við skúringar, er eina vitnið að atburðinum. Norður í Urriðavík stendur öll sveitin á öndinni vegna dularfullra morða og reimleika. Tengjast þessir atburðir? Hallveig Thorlacius leysir gátuna í grípandi og spennandi frásögn sem er ekki laus við gráglettni.

Banaráð

Móðir og barn finnast myrt á heimili sínu í rólegri íbúðagötu í Gautaborg. Á dyrabjöllunni standa fjögur nöfn, þar á meðal nafn fyrrverandi heimilisföðurins Tyve sem er starfsmaður sænsku lögreglunnar. En hvar er hann niðurkominn? Og hvar er Mia?

Grátvíðir

Hin íslenska Jóhanna dregst óvænt inn í rannsókn á dauða ungrar konu á Norður-Ítalíu og leit þeirra Robertos lögreglumanns að svörum leiðir þau um um alla Ítalíu og allt til Sikileyjar. Nístandi fjölskylduleyndarmál leita dagsljóssins og á milli Jóhönnu og Robertos vakna sterkar tilfinningar. Rómantísk og spennandi saga á suðrænum slóðum.

Hús hinna sívölu ganga

Samvöxnu tvíburarnir Lotta og Myrra leita skjóls á Reykjalundi undan ofstækisfullum föður þeirra og sértrúarsöfnuðinum sem hann leiðir. Þar vonast þær eftir vísbendingum um móður þeirra í skiptum fyrir hættulega skurðaðgerð. Jafnframt verða þær að forðast að verða næstu fórnarlömb skæramorðingjans alræmda. Kostulegt og hrollvekjandi persónusafn.

Læknir verður til

Þrír ungir læknar mæta óvæntum áskorunum fyrstu ár sín í starfi. Á endalausum vöktum og yfirfullum deildum glíma þeir við hægfara tölvukerfi og mæta fjölskrúðugum persónum og aðstæðum sem neyða þá til að endurskoða fyrri lífsgildi og hugmyndir sínar um starfið.

Sálarhlekkir

Komið er að tímamótum í lífi Halldóru Hallbjargar Orradóttur þegar farið er að líða á ævikvöldið. Hún þarf að segja skilið við lífið sem hún þekkir og flytjast á hjúkrunarheimili með lítið annað með sér en dularfullt umslag. Nýr kafli hefst í lífi hennar en um leið rígheldur fortíðin í hana. Myrk leyndarmál, sem hlekkjað hafa sál hennar alla tíð fr

Sigurverkið

Söguleg skáldsaga sem gerist á Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld; margslungin frásögnin lýsir á áhrifaríkan hátt beiskum örlögum alþýðufólks og valdinu sem það verður að lúta. Sagnameistarinn Arnaldur fetar hér nýja slóð, því bókin er að hluta byggð á raunverulegum atburðum og persónum sem stíga fram á sviðið í trúverðugri og mergjaðri sögu.

Sjávarhjarta

Ása Marin er að góðu kunn fyrir heillandi skáldsögur sínar um ævintýri á framandi slóðum. Í Sjávarhjarta segir frá Díu sem fer í sannkallaða draumasiglingu um Karíbahafið með sínum ástkæra Viðari. Litríkt mannlíf og gómsætur matur eyjanna standa sannarlega undir væntingum, en dularfull og daðurgjörn kona úr fortíðinni setur strik í reikninginn.

Sólskinshestur

Áhrifamikil saga um ástlausan uppvöxt í stóru húsi og óhöndlanlega hamingju, um draumóra og kaldan veruleika, æskuást sem týnist og birtist á ný, djúpa sorg – og um dauðann. Þessi einstaka skáldsaga, í senn bráðfyndin og nístandi sár, kom fyrst út 2005 og er ein skærasta perlan í höfundarverki Steinunnar. Guðrún Steinþórsdóttir skrifar eftirmála.

Sumarblóm og heimsins grjót

Grípandi örlagasaga um ást og vináttu, flókin fjölskyldubönd og aðferðir fólks til að bjarga sér á fyrri hluta 20. aldar. Þegar Sóley stendur ein uppi með nýfætt barn þarf hún að gangast undir samkomulag sem færir henni bæði frelsi og fjötra. Áföllin dynja yfir en seiglan fleytir henni langt. Fyrsta skáldsaga höfundar, innblásin af sönnum atburðum.

Urðarhvarf

Spennandi saga sem heldur lesanda í heljargreipum. Eik tilheyrir hópi sjálfboðaliða sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í skjól. Við Urðarhvarf situr hún fyrir læðu með kettlingahóp þegar skyndilega birtist skrímsli úr fortíðinni sem rótar upp óþægilegum minningum. Skepna sem Eik hafði talið sjálfri sér trú um að væri bara hugarburður.