Ljóð og leikhandrit

Síða 1 af 3

Áttaskil

ljóð og lausavísur

Náttúruljóð eru í fyrirrúmi hjá skáldinu og kvæðakonunni en ýmislegt annað kemur líka við sögu. Í eftirmála segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku m.a.: „Þegar ljóð hennar eru lesin er eins og landið Ísland, með öllum sínum dyntum, veðurfarssveiflum og skapbrigðum hafi valið hana til að túlka sjónarmið sín.”

Dreymt bert

Dreymt bert er heildarsafn prósaljóða og örsagna sem áður hafa birst í bókum Þórarins. Myndir í bókinni eru eftir Ingu Maríu Brynjarsdóttur. Í káputexta Jóns Kalmans Stefánssonar segir meðal annars: „Smáprósar Þórarins standa föstum fótum í raunveruleikanum og þurfa samt ekki á honum að halda; í þeirri þversögn blómstrar Þórarinn.“

Félagsland

Fyrsta ljóðabók Völu Hauks sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2024. Rauður þráður í bókinni eru félagsheimili landsins fyrr og nú, hlutverk þeirra, andblær og ásýnd. Vala yrkir beinskeytt ljóð um lífið í landinu, samfélag og menningu, litbrigði náttúrunnar og hugans, strjála byggð og samvistir við aðra, með léttleika og óvanalega sýn í farteskinu.

Flugur og fleiri verk

Ljóðbókin Flugur eftir Jón Thoroddsen kom út árið 1922. Mun hún vera fyrsta bókin á Íslandi sem eingöngu hafði að geyma prósaljóð. Hún er endurútgefin í tilefni af hundrað ára ártíð höfundar. Í þessa útgáfu hefur auk þess verið safnað öðrum ljóðum og textum Jóns. Guðmundur Andri Thorsson ritar eftirmála.

Fyrir vísindin

Anna Rós kveður sér hljóðs með vísindalegri nákvæmni í sinni fyrstu ljóðabók. Árið 2025 hlaut hún Ljóðstaf Jóns úr Vör. Vísindakonan tekur vinnuna aldrei með sér heim / getur ekkert að því gert að sum hús / eru í eðli sínu tilraunastofur / þakrenna dropamælir / þröskuldur loftvog / gluggi smásjá / glerskápur jarðskjálftamælir.

Hlér

Náttúra, maður og mannshugur hafa verið yrkisefni Hrafns Andrésar og ráðið miklu um svip ljóða hans. Í þeim er líf af ætt óróans, jafnt í gleði sem sorg. Undiralda ljóðaflokksins Hlés er harmur og þungbær reynsla en ljóðin eru einlæg úrvinnsla föður sem missti son sinn barnungan. Ljóðin bera vitni um mikla ást, missi og lífskraft minninga.