Ljóð og leikhandrit

Eina hverfula stund

Bók sem geymir hugnæm og djúpskyggn ljóð sem fá lesandann til að staldra við og hugleiða tímann og mannsævina, eilífðina og andartakið. Þetta er sjötta ljóðabók Njarðar en hálf öld er nú liðin síðan sú fyrsta kom út. Hann hefur á sextíu ára höfundarferli sent frá sér frumsamdar bækur af ýmsu tagi og fjölda þýðinga, ekki síst á ljóðum.

Fjörusprek og Grundargróður

Rúnar kristjánsson er baráttuskáld. Hann yrkir ljóð til þess að vekja athygli á því sem betur má fara og kveikja von í brjósti þeirra sem minna mega sín. Í ljóðunum má finna trúarhita skáldsins, væntumþykju og von um betri og bjartari veröld, en líka illan grun um að maðurinn sé að villast á vegferð sinni. Rúnar er skáld hins hefðbundna ljóðforms.

Flagsól

Í þessari undurfallegu myndskreyttu ljóðabók fáum við að kynnast leyndarlífi íslenskra sveppa. Raddir þeirra berast okkur úr skógarbotninum og vegkantinum, af trjábolum, greinum og steinum; við kynnumst sveppum sem skjóta, springa, seyta, fettast og brettast, trega og syrgja, daðra og elska. Á fjórða tug vatnslitamynda er í bókinni.

Hlustum frekar lágt

Þrjátíu og tvö áður óbirt háttbundin ljóð. Flest þeirra tvöföld eða þreföld í roðinu, þannig að í raun fylla þau næstum hundraðið. Hér er meðal annars fjallað um grímur og hornsíli, útfjólur og íslensku kerlinguna, fálka í fjósi og trójuhesta, hraðamet snigils og gildi þess að hlusta lágt, hjólbörur með vængi, tímareim sem fer og guð í augnhæðum.

Hrópað úr tímaþvottavélinni

„Í dag eru teknar milljónir mynda. Þær eru helst aldrei skoðaðar. Enda ekki teknar til þess. Heldur til að drepa tímann. Festa tímann. Frysta tímann. Ef tíminn er þá til.“ Hvergi fremur en í þessari angursáru bók ljóða og athugasemda gefur að líta skorinorðari greiningu á stöðu nútímamannsins – þess manns sem virðist úreltur fyrir aldur fram.

Hugleiðingar

Miðaldra, hvítur, íslenskur, siskynja, gagnkynhneigður karlmaður yrkir um samtímann og farinn veg

Hér er ort um miðaldra, hvítan, íslenskan, sískynja, gagnkynhneigðan karlmann sem hefur það ansi gott. Það er of lítið ort um slíka menn. Þemu bókarinnar eru samfélagsskoðun, lífsspeki og minnisstæð augnablik. Sum eru gamansöm en önnur eru alvarlegri. Ljóðin tala sínu máli og best skoða og máta sig við þau. Höf. er rannsóknarlögregla og rithöfundur

Kurteisissonnettan

Frá unglingsárum hefur Gunnar ort, bæði háttbundin kvæði og frjálsari í formi. Undanfarna áratugi hefur hann einbeitt sér að margbreytileika íslenskra bragarhátta og yrkir undir fjölbreyttum háttum. Hann er virkur í starfi Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Kvæðamannafélagsins Snorra í Reykholti. Kurteisissonnettan og önnur kvæði er önnur bók hans.

Kvæði & sögur

Loksins á íslensku! Myndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur ritar ítarlegan inngang um höfundarverkið og þýðingarnar.

Maður lifandi

Kristinn Óli S. Haraldsson, þekktur sem helmingur dúettsins Jói Pé og Króli, glímdi lengi við þunglyndi og tilvistarangist. Ein leið hans út úr vandanum var að skrifa ljóð og texta þar sem hann tekst á við sjálfan sig og tilveruna. Þeir koma hér á bók ásamt áhrifamiklum myndverkum eftir Axel Magnús, Isak Emanúel Glad og Jóhannes Darmian.

Paradísarmissir

Stórbrotið söguljóð frá 17. öld eftir eitt af höfuðskáldum Englendinga. Frásögnin spannar alla heimssöguna, frá sköpun til dómsdags, en kjarni hennar er syndafallið og klækjabrögð Satans þegar hann freistar Adams og Evu í aldingarðinum. Jón Erlendsson þýðir kvæðið af eljusemi og listfengi og skrifar skýringar, en inngang ritar Ástráður Eysteinsson.