Barnabækur - Skáldverk 12-18 ára

Hrím

Hætturnar leynast víða á annars konar Íslandi þar sem mannfólk deilir landinu með risavöxnum dýrum, ekki síst á veturna þegar hrímsvelgirnir koma niður af hálendinu. Líf Jófríðar umturnast þegar hún þarf að velja á milli tveggja stráka og ábyrgðin á velferð Mývatnsskarans hvílir skyndilega á hennar herðum. Ævintýraleg þroskasaga um ástir og örlög.

Kennarinn sem sneri aftur

Þótt krakkarnir í 8. BÖ hafi myndað þéttan vinahóp treystir Stefanía engum fyrir því sem gengur á heima. Þegar krakkarnir fara á hrekkjavökuhátíð fer af stað röð dularfullra atburða og Stefanía þarf að kafa djúpt eftir hugrekki sínu til að takast á við skelfilegar og krefjandi ógnir.

Mömmuskipti

Linda hefur alltaf verið frægari en hana langar. Mamma hennar er áhrifavaldur sem tjáir sig óspart um fjölskyldulífið á netinu og barnamynd af Lindu er þekkt um allan heim. En nú er illt í efni! Mamma Lindu keppir um pláss í nýjum raunveruleikaþætti. Ef allt fer á versta veg fá þau nýja mömmu í heilan mánuð og alþjóð mun fylgjast með!

Síðasti seiðskrattinn bók 3 Návaldið

Lokabindið í æsispennandi fantasíuþríleik fyrir börn og unglinga. Hildur, Theódóra og Baldur eru uppgefin eftir innrásina frá Túle. Bjarni vinur þeirra er fastur í öðrum veruleika þar sem Návaldið skelfilega leikur lausum hala. Úrslitaorrustan við hinn hinsta dauða nálgast hratt, en kraftar söguhetjanna eru öflugri en þau grunar.

Dulstafir Orrustan um Renóru

Eftir hrakfarirnar í marmaraborginni standa Elísa og gæslumennirnir frammi fyrir krefjandi ferðalagi sem fer með þau um gjörvallt landið. Hættur leynast víða, sterkar tilfinningar krauma og ungmennin þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Lokaorrustan við steingyðjuna er framundan og örlög allrar Renóru hvíla á herðum þeirra.

Álfheimar Ófreskjan

Konáll, Soffía, Pétur og Dagný hafa verið krýnd konungar í heimi álfanna. Konáll er alsæll í nýju hlutverki þótt hann kæri sig lítið um áskoranir sem fylgja. Fljótlega taka þau eftir illum öflum sem kannski hafa slæðst úr öðrum heimum og yfir vofir að hin ógurlega ófreskja Vritra geti losnað úr álögum og þá er bæði konungsríkinu og heiminum hætt.

Skandar og draugaknapinn

Ævintýrið um Skandar og einhyrningana heldur áfram. Skandar hefur uppfyllt drauma sína og er orðinn einhyrningaknapi og þjálfari. En ógnin er aldrei fjarri og þegar hann og félagar hans hefja sitt annað ár á Eyjunni blasir við þeim ný og ófyrirséð ógn. Getur Skandar komið í veg fyrir sjálfseyðingu Eyjunnar, áður en það er of seint fyrir þau öll?

Skólaslit 2

Dauð viðvörun

Ár er liðið frá því að hugrakkir krakkar gjörsigruðu myrkraverur sem höfðu lagt Reykjanesið undir sig. Allt endaði vel og allir gátu andað léttar. Eða hvað? Þegar hópur unglinga skellir sér í ferðalag út á land kemur í ljós að enginn er óhultur. Allra síst krakkarnir í öftustu rútunni ... Sjálfstætt framhald metsölubókarinnar Skólaslita.

Smáralindar-Móri

Vinirnir Flóki og Patti laumast inn á lokað byggingarsvæði þar sem risastór verslunarmiðstöð er að rísa. Skyndilega hverfur Patti og eftir það verður ekkert eins og áður. Ári síðar er Lotta með vinkonum sínum í Smáralind þegar hún tekur á rás og hverfur. Smáralindar-Móri er mergjuð saga fyrir lesendur sem kjósa spennu og dálítinn óhugnað!

Stelpur stranglega bannaðar

Bíddu ha? Sónarmynd... í símanum hennar ömmu? GÆTU HLUTIRNIR MÖGULEGA ORÐIÐ EITTHVAÐ VERRI? Nýja stelpan í bekknum er búin að stela bestu vinkonu Þórdísar. Staða hennar sem eina stelpan í stórfjölskyldunni er í hættu. Þórdís vonar að þetta séu óþarfa áhyggjur; að hún haldi stöðu sinni í fjölskyldunni og nái að endurheimta bestu vinkonu sína.

Vinkonur Strákamál 1: Besta sumarið

Jósefína fær loksins leyfi til að verja sumarfríinu hjá frænku sinni úti við sjóinn. Á morgnana á hún að vinna í íssjoppu og eftir hádegi lærir hún á brimbretti. Hún hefur sko engan tíma fyrir stráka og svoleiðis. En fyrsta daginn hittir hún Kris. Hann er rosalega sætur og hann kann að sörfa. Þetta virðist ætla að verða stórkostlegt sumar.

Vinkonur Strákamál 2: Hættuleg hrifning

Emma fer í karateæfingabúðir og þar hittir hún Óliver. Allar stelpurnar eru spenntar fyrir honum en samt líka svolítið smeykar því Óliver er alltaf að slást. Emma bjargar honum frá því að vera sendur heim með því að þykjast vera kærastan hans og í staðinn lofar Óliver að hjálpa henni að æfa sig. Þá sér Emma hliðar á honum sem aðrir þekkja ekki.

VeikindaDagur

Þetta byrjaði þegar ég gleymdi að taka lyfin. Fimm dögum síðar ligg ég í líkhúsinu ... dáinn og stjarfur á köldu stálborðinu. Dagur er eitthvað svo ólíkur sjálfum sér, með botnlausa matarlyst, dynjandi höfuðverk, gloppur í minninu og óteljandi spurningar. Hvað varð eiginlega um Breka? Af hverju er auga í klósettinu? Á hann kannski séns í Ylfu Dögg?