Fræðirit, frásagnir og handbækur

ADHD í stuttu máli

Lykillinn að skilningi og þroska

Aðgengileg og fróðleg bók sem fjallar ekki síst um þá kosti sem geta fylgt röskuninni og hvernig fólk með ADHD getur dafnað sem best í lífi og starfi. Hér útskýrir hinn heimsþekkti ADHD-sérfræðingur, metsöluhöfundur og TikTok-stjarna, dr. Edward M. Hallowell, vísindin að baki ADHD um leið og hann hrekur mýtur og leiðréttir misskilning.

Andvari 2024

Aðalgrein Andvara 2024 er æviágrip Ragnhildar Helgadóttur, fv. ráðherra, eftir sagnfræðingana Rósu Magnúsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur. Ragnhildur var kjörin á þing aðeins 26 ára og sat á þingi í alls 23 ár. Hún var fyrsta konan sem var ráðherra í heilt kjörtímabil og ferill hennar er um margt merkilegur. 10 aðrar greinar eru í riti ársins.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Bragðarefur

Með molum úr gömlum textum sætum, súrum og beiskum

Bókin er hræringur af textum með ólíka áferð og bragð á tungu. Hér fara saman fróðleiks- og skemmtimolar í nokkurs konar bragðaref. Þeir eru tíndir saman úr margs konar handritum frá ýmsum tímum. Ætlunin er að veita lesendum innsýn í fjölbreytt lesefni fólks á fyrri tíð. Textarnir eru litríkir eins og sönnum ærslabelg sæmir.

Börn í Reykjavík

Einstaklega glæsilegt og áhugavert stórvirki um líf barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld til okkar daga, prýtt hátt á sjötta hundrað ljósmynda. Börnin birtast okkur á hvunndagsfötum og sparibúin, sagt er frá námi þeirra og skyldum, leikjum, skemmtunum og félagsstarfi, auk þess sem fjallað er um þróun í barnaverndar-, uppeldis- og skólamálum.

Dauða­dómurinn

Bjarni Bjarnason frá Sjöundá (1761–1805)

Sjöundármálin eru almenningi vel kunn. Þeim hefur margsinnis verið lýst frá sjónarhorni yfirvalda en hér er sakborningnum sjálfum Bjarna Bjarnasyni gefið orðið. Sagan endurspeglar líf þessa 18. aldar almúgamanns sem ólst upp við nýstárlegar hugmyndir upplýsingarinnar um aga, refsingar og framfarir, einnig helvítisótta og utanbókarlærdóm á orð Guðs.

Dópamínríkið

Að finna jafnvægi á tímum ofgnóttar

Við lifum á tímum ofgnóttar, hvort sem um er að ræða vímuefni, mat, tölvuleiki, klám, samfélagsmiðla eða annað. Framboðið er ótakmarkað, örvunin viðstöðulaus og við getum látið allt eftir okkur. Hér er útskýrt hvers vegna unaðsleitin, áráttukennd neysla eða hegðun, leiðir óhjákvæmilega af sér vanlíðan og hvað sé til ráða.