Um Bókatíðindi

Bókatíðindi 2021

Útgefandi Félag íslenskra bókaútgefenda
Barónsstíg 5
101 Reykjavík
Sími 511-8020
www.fibut.is
Hönnun kápu Halldór Baldursson og Ámundi Sigurðsson
Ábyrgðarmaður Benedikt Kristjánsson

Kæri bókaunnandi,

Sú hefð að gefa bækur til jólagjafa má rekja til áranna eftir síðari heimstyrjöld og eftir að hafa fengið sjálfstæði okkar frá Dönum árið 1944. Á þessum árum var efnhagsástandið hér á landi ekki burðugt enda kreppa eftirstríðsáranna ríkjandi hér sem og í öðrum löndum. Fyrstu ár nýfengins sjálfstæðis voru því ekki auðveld fyrir hið unga lýðveldi sem stóð nú frammi fyrir afar flóknum og krefjandi aðstæðum. Þá dugði ekki að grípa til neinna vettlingataka þannig að efnahagsástandið færi ekki úr böndunum. Mjög umfangsmiklar aðgerðir reyndust nauðsynlegar til takmarka innflutning á margskonar vörum. Það var gert með víðtækum kvótum og innflutningsbönnum sem sett voru á fjölmargar neysluvörur. Þetta takmarkaði mjög það úrval af gjafavöru sem landsmönnum hafði áður staðið til boða m.a. til jólagjafa. En þar sem pappír var utan þessara hafta þá var hann fluttur inn til að framleiða bækur sem mjög fljótt urðu vinsælar jólagjafir. Þannig varð útgáfa íslenskra bóka á þessum árstíma tákn um hugvit smáþjóðar sem bæði styrkti sjálfsmynd sína á erfiðum tímum og skóp líka einstaka hefð sem hvergi á sér hliðstæðu í heiminum.

Ekki þarf svo að staldra lengi við lestur þessara Bókatíðinda til að sjá að nú sem aldrei fyrr er íslensk bókaútgáfa í miklum blóma. Úrvalið hefur sjaldan verið fjölbreyttara og aldrei fyrr hafa jafn margar nýjar raf- og hljóðbækur komið út. Útgáfa nýrra íslenskra skáldverka er líka í sögulegu hámarki og matreiðslubókum fjölgar á milli ára, svo fátt eitt sé nefnt. Allir ættu því að finna bækur við sitt hæfi til að njóta, lesa, hlusta, tala um, deila og gefa.

Í ár kynnum við nýja og bætta þjónustu fyrir alla unnendur íslenskra bóka því samhliða hinni hefðbundnu prentuðu útgáfu Bókatíðinda kynnum við nýja og notendavæna rafræna útgáfu á slóðinni www.bokatidindi.is

Gleðileg einstök íslensk bókajól!

Heiðar Ingi Svansson,
formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.