Um Bókatíðindi
Bókatíðindi komu fyrst út árið 1928 undir nafninu Bókaskrá Bóksalafélagsins. Það var Ársæll Árnason sem fyrstu tók saman þetta yfirlit yfir nýútkomnar bækur með stuttri lýsingu á efni þeirra.
Meðal titla í þessari fyrstu útgáfu eru meðal annars Ævintýri og sögur H.C. Andersen, Skytturnar þrjár eftir Alexandre Dumas, Litla lávarðinn eftir Burnett, Nágrannar, þrjár sögur eftir Friðrik Ásmundsson Brekkan, Gráskinna I í útgáfu Sigurðar Nordal og Þórbergs Þórðarsonar, Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, Vesalingarnir, 5. bindi eftir Victor Hugo, Á Skipalóni eftir Jón Sveinsson, Njáls saga þumalings eftir Selmu Lagerlöf, Dísa ljósálfur eftir G.T. Rotman og Smjörbítill og Gulltanni færð í letur af Ingunni Jónsdóttur með myndum Tryggva Magnússonar.
Ritið hét svo ýmist Bókaskrá Bóksalafélags Íslands eða bara Bækur allt fram til ársins 1986 þegar það kom út undir nafninu Íslensk bókatíðindi. Það var svo ekki fyrr en með útgáfu ársins 1995 að látið var nægja að nefna blaðið Bókatíðindi, líkt og það hefur verið kallað, allar götur síðan ásamt ártali útáfuárs.
Þeir sem vilja skrá nýja titla inn á vefinn eru beðnir um að hafa samband við félagið.