Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Járn, hör, kol og kalk

  • Höfundur Þóra Sigurðardóttir
  • Ritstjóri Kristín G. Guðnadóttir
Forsíða kápu bókarinnar

Ljósmyndir af fullunnum verkum en líka ljósmyndir af ferlum á vinnustofu. Bókin er að hluta unnin í tengslum við sýningu í Listasafni Íslands 2024: „Járn, hör, kol og kalk“.

Í bókinni eru jafnframt textar á ensku og íslensku eftir höfundana Ann-Sofie Gremaud, Erin Honeycutt, Geir Svansson, Gunnar Harðarson og Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Bókin er að hluta til unnin samhliða undirbúningi fyrir sýningu í Listasafni Íslands 2024: Járn, hör, kol og kalk. Ný verk Þóru Sigurðardóttur.  

Á sýningunni voru verk, unnin á síðastliðnum fimm árum.

Í bókinni birtast myndir af verkum þar sem unnið er með margvíslegar planteikningar og kannanir á láréttum og lóðréttum ferlum. Einnig eru þar dæmi um einfaldar línuætingar, prentaðar lag ofan á lag, svo og ljósmyndir af verkum sem unnin eru með kolum, kalki, grafíti og eggtempera á límgrunnaðan hör; stundum er litalagið þunnt og gagnsætt og áferð hörsins gegnir þar mikilvægu hlutverki sem hluti heildarmyndarinnar. Jafnframt birtast stillur úr vídeói sem frumsýnt var í sal Listasafns Íslands 2024. Þar er um að ræða upptöku úr eldhúsi að lokinni vinnu með innmat; úrgangur og himnur fljóta í vatni. Í bókinni eru einnig  myndir af þrívíðum verkum í vinnslu, skúlptúrar þar sem koma fyrir „objektar“ og hlutir úr margskonar efnum, sumir mótaðir en aðrir fundnir, stundum einhverskonar “rusl” eða úrgangur.  Loks eru yfirlitsmyndir frá sýningunni í listasafninu og af vinnustofu, auk ljósmynda af nokkrum verkum frá árunum 1992 til 1994 sem tengjast þeim athugunum sem sýningin hverfist um.

Í bókinni eru textar á ensku og íslensku eftir fimm höfunda, en textarnir voru skrifaðir í tilefni sýninga Þóru á tímabilinu 1998 til 2017 og spanna því tæp tuttugu ár af ferli hennar. Þeir birta fjölbreytta nálgun á mismunandi tímum á það vandasama viðfangsefni að skrifa um myndlist. 

Saman ná þessir fimm textar að draga upp áhugaverða og blæbrigðaríka mynd af höfundarverki Þóru.  

Úr formála Kristínar G. Guðnadóttur, listfræðings.