Sagnfræði og trúarbrögð

Ástand Íslands um 1700

Lífshættir í bændasamfélagi

Hvernig var að búa á Íslandi á tímum bændasamfélagsins, landi bænda og sjómanna, höfðingja og almúgamanna? Í bókinni er lýst lífsháttum Íslendinga í upphafi 18. aldar og fjallað um fjölskyldur og heimili; jarðir, byggðaskipan og búsvæði; lífskjör þjóðfélagsstétta; fátækt og ríkidæmi.

Betri heimur

Um metsölubók allra tíma

Hrífandi frásögn mest seldu bókar allra tíma. Biblían er metsölubók, en hvernig bók er hún? Um hvað fjallar bókin í raun? Hvað segir Biblían okkur um tilgang lífsins, jörðina og betri heim? Hvað segir hún okkur um Guð, himnaríki og helvíti? Þar er ýmislegt öðruvísi en margir ætla. Hvernig passar Jesús svo inn í allt dæmið, hvað er málið með hann?

Börn í Reykjavík

Einstaklega glæsilegt og áhugavert stórvirki um líf barna í Reykjavík frá því seint á 19. öld til okkar daga, prýtt hátt á sjötta hundrað ljósmynda. Börnin birtast okkur á hvunndagsfötum og sparibúin, sagt er frá námi þeirra og skyldum, leikjum, skemmtunum og félagsstarfi, auk þess sem fjallað er um þróun í barnaverndar-, uppeldis- og skólamálum.

Aldarlýsing - Ættarsaga Drottningin í Dalnum

Guðrún Margrét Þorsteinsdóttir

Saga Guðrúnar Margrétar Þorsteinsdóttur, tveggja eiginmanna og sona hennar í Vatnsdal, er um margt merkileg. Foreldrar hennar urðu að láta hana frá sér vegna fátæktar og ómegðar þegar hún var þriggja ára. Hún eignaðist þrjú börn og varð ekkja í annað sinn 42 ára. Í kjölfarið keypti hún jörðina Haukagil í Vatnsdal og bjó þar með reisn í 26 ár.

Guð er raunverulegur

Ævintýralegar lífsreynslusögur og lykilatriði

Þessi bók lýsir því hvernig lífið umbreytist í magnþrungið ævintýri leyfi maður sér að trúa án þess að efast. Aðeins með Guði hefur sagan sem hér er sögð getað raungerst og sýnir að sannleikurinn getur verið langtum ótrúlegri en ímyndaður skáldskapur. Lýst er ævintýralegu lífshlaupi og eru endurminningarnar eins og besti spennutryllir á köflum.

Hvað verður fegra fundið?

Úrval kveðskapar sr. Hallgríms Péturssonar

Úrval þess fjölbreytta kveðskapar sem liggur eftir sr. Hallgrím Pétursson, helsta skáld 17. aldar á Íslandi. Hann er þekktastur fyrir Passíusálma sína en orti kvæði og sálma af öllu tagi. Hér má til dæmis finna heilræði, bænavers, ádeilu og náttúrulýsingar, auk þekktra erinda úr Passíusálmunum.

Með harðfisk og hangikjöt að heiman

Undirbúningur og þátttaka Íslands á Sumarólympíuleikunum í London árið 1948

Íslendingar sendu fjölmennan flokk á Ólympíuleikana í London árið 1948 þrátt fyrir gjaldeyrishöft á Íslandi og matarskort í Bretlandi. Með í för voru 100 kíló af íslenskum mat til að bregðast við aðstæðum. Fjallað er um undirbúninginn sem gekk ekki þrautalaust fyrir sig og þátttökuna á leikunum ásamt hinum ýmsu áskorunum sem fylgdu.

Nú blakta rauðir fánar

Saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968

Af hverju var kommúnistahreyfingin á Íslandi jafn öflug og raun ber vitni? Fjallað er um upphaf hennar og þróun frá 1918–1968 og hún skoðuð í ljósi íslenskrar þjóðfélagsþróunar og alþjóðlegra hugmyndastrauma. Sýnt er hvernig fámennum hópi kommúnista tókst að gera flokk sinn að fjöldahreyfingu jafnframt er valdabaráttu innan hennar gerð skil.

Saga

Tímarit Sögufélags LXII: 1 og 2, 2024

Tímaritið Saga kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Efni þess tengist sögu og menningu landsins í víðum skilningi. Ritrýndar greinar og viðhorf mynda stærstu efnisþætti tímaritsins. Í Sögu birtast einnig ritdómar og ritfregnir um nýjar bækur er varða sögu, einkum Íslandssögu, og annað efni af sagnfræðilegum toga. Ómissandi öllu áhugafólki.

Til taks

Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands - fyrstu 40 árin

Í þessari bók er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra.

Þjóðhagfræði almennrar skynsemi

Bók fyrir alla þá sem hafa áhuga á þjóðfélagsmálum og helstu hugtökum við hagfræðilega greiningu. Hún hentar vel þeim sem leitast við að sjá fyrir þróun efnahagsmála og tekur fyrir sum mikilvægustu vandamál samtímans. Höfundurinn, Ravi Batra, er heimskunnur metsöluhöfundur. Þorsteinn Þorgeirsson ritar vandaðan viðauka um efnahagsþróun á Íslandi.