Kona verður orðlaus
Lygilega sönn reynslusaga
Lygilega sönn reynslusaga um málóða konu sem varð „orðlaus“ bæði vegna krabbameins í barka, sem og samskipta við íslenska heilbrigðiskerfið. Bókin er raunsæ, en jafnframt ærslafull ádeila með skáldlegu ívafi. Opinská frásögn um einstaka seiglu í andstreyminu sem vekur lesanda til umhugsunar um hið dýrmæta fjöregg sem líf okkar allra er.
Lesendur eru kynntir fyrir hliðarsjálfum höfundar. Um er að ræða þríeyki með dömu nokkra í broddi fylkingar. Sú er kotroskin kerla sem hjálpaði höfundi við að þrauka erfiða tíma í veikindunum, ásamt guðsbarni og drottningu.
Í þessari frásögn kveður við sammannlegan tón, en öll búum við að sögum, reynslu og upplifunum sem aðrir geta sótt styrk í og jafnvel fengið innsýn í áður ókannaða kima lífsins.
Birna G. Konráðsdóttir hefur lengi mundað pennann með næmu auga fyrir smáatriðum lífsins. Hún hefur áður gefið út smásagnasafnið Hamingjan í Hillunum en þar má finna sögur sem hafa unnið til verðlauna og birst víða í gegnum árin.