Vestfirsku leiksögubækurnar Leiklist á Ísafirði
Hér er hún loks komin fjórða vestfirska leiksögubókin og að þessu sinni er leiksaga höfuðstaðarins Ísafjarðar í sviðsljósinu. Fjallað verður um sögu leiklistarinnar í kaupstaðnum við flæðarmálið allt frá því að fyrsta leikverkið fór á svið og til þeirra nýjustu. Bókin er prýdd fjölda mynda úr hinni löngu og sögulegu leiksögu Ísafjarðar.
Í bókinni Leiklist á Ísafirði verður leitast við að fanga sögu leiklistarinnar á Ísafirði allt frá fyrstu leikuppfærslu til þeirra nýjustu. Víst er erindið líkt og leikarans sem á hverju kveldi finnst líkt og hann sé að kasta sér fyrir björg um leið og ljósin koma upp og leikur hefst. Það er nokk víst að eitthvað mun ekki komast í sviðsljós þessarar ísfirsku leiksögu sem sýnir bara fram á það hve viðamikill þáttur leikhúsið er í sögu bæjarins við flæðarmálið. Víst hefur ritari oft þurft að gera einsog leikarinn sem vildi þjálfa sína rödd sem best og hélt því út í sjaldgæfan vind og storm og svo niður í flæðarmálið hvar hann öskraði á móti öldunni sem knúsaði ekki steina flæðarmálsins heldur klappaði þeim full harkalega. Það sagði nefnilega enginn að þetta yrði auðvelt. Það er nefnilega mjög auðvelt að tapa sér í heimildum leiksögunnar því það rekur ávallt eitthvað nýtt á leikfjöruna sérlega eftir því sem meira er leitað og grúskað. Svo lukkulega vildi hins vegar til að ritara var gefin nálína til að ljúka þessari sögu um leiklist á Ísafirði sem nú er loks komin á prent og á spjöld sögunnar.
Kæri lesandi nú drögum við tjöldin frá í hinu ísfirska leikhúsi, við erum komin í flæðarmálið þaðan sem allar sögur eiga sitt upphaf.
Fyrri vestfirsku leiksögubækurnar eru Leiklist á Bíldudal, Leiklist- og list á Þingeyri og Leiklist í Bolungarvík.