Sjálfstyrktarbók Tíu skilaboð

Að skapa öryggi úr óvissu

Forsíða bókarinnar

Tíu skilaboð er ákveðinn leiðarvísir til að fást við lífið. Þrátt fyrir að við lendum í skakkaföllum, upplifum sársauka og vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, þá höldum við áfram. Við öxlum ábyrgð, sýnum hugrekki og þrautseigju, höldum í vonina og höfum trú á okkur sjálfum og mannkyninu í heild.

Lengi vel hélt Bergsveinn Ólafsson, doktorsnemi í sálfræði, að hann yrði alltaf hamingjusamur og þyrfti ekki að mæta mikilli þjáningu eða takast á við sársauka til lengri tíma. Annað kom á daginn. Þá hófst vegferð með fjölda áskorana sem skilaði sér meðal annars í þessari bók.

Í fyrri bók sinni, Tíu skref – í átt að inni¬haldsríku lífi, kortlagði Bergsveinn hvernig öðlast mætti innihaldsríkt líf, skref fyrir skref. Nú heldur hann áfram á þeirri braut með tíu beinskeyttum skilaboðum sem geta hjálpað fólki að nálgast sitt eigið jafnvægi milli öryggis og óvissu í flóknum heimi stöðugra breytinga. Lykillinn að því er að komast hjá því að leggja á sig meiri þjáningu en ástæða er til og leggja vinnu í þá þætti sem gefa lífinu raunverulega merkingu.

Bergsveinn er þekktur fyrir þá ástríðu sína að hjálpa fólki og að skafa ekki utan af hlutunum. Hér tekur hann lesendur með sér í heillandi ferðalag og nýtir sér þekkingu sína og reynslu til að opna fyrir þeim áhrifaríkar leiðir til að takast á við aðstæður sem þeir mæta í lífinu af festu, hugrekki og heiðarleika.