Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Út á Brún og önnur mið

útgerðarsaga Vatnsleysustrandarhrepps til 1930

  • Höfundur Haukur Aðalsteinsson
Forsíða bókarinnar

Í bókinni er rekin saga bændaútgerðar í Vogum og á Vatnsleysuströnd allt frá elstu fáanlegu heimildum fram á þriðja áratug tuttugustu aldar þegar vélbátar höfðu leyst árabátana af hólmi. Sagt er frá áhrifum Viðeyjarklausturs á svæðinu, konungsútgerð, spítalafiski, sjósókn, netaveiðideilum, saltfiskverkun sjóbúðum og þilskipaútgerð.

Bók þessi byggir á viðamikilli könnun frumheimilda í fornbréfasafni, Þjóðskjalasafni og fleiri skjalasöfnum sem gefur í mörgum tilfellum nýja sýn á söguna, bæði sögu svæðisins sem og sjósóknar. Hún er öllum áhugasömum um útgerðarsögu fróðleg lesning og fræðandi um lífshætti þeirra sem sóttu sjóinn og byggðu landið fyrr á öldum.

Höfundurinn, Haukur Aðalsteinsson (f.1945), er skipasmiður, fæddur og uppalinn á Vatnsleysuströnd. Hann hefur lengi verið áhugamaður um sögu útgerðar og hefur áður birt tímaritsgreinar um sögu þilskipa á Suðurnesjum. Þá hefur hann einnig smíðað tvíæring, algengasta fiskbát við sunnaverðan Faxaflóa á átjándu öld, eftir teikningu úr Íslandsleiðangri Joseph Banks árið 1772 og er bátnum lýst í bókinni.

Mikið af efninu er sótt í frumheimildir og hefur ekki áður komið fyrir sjónir almennings.

Ritstjóri bókarinnar er Jóhanna Guðmundsdóttir sagnfræðingur á Þjóðskjalasafni, búsett í Vogum.

Ljósmyndari er Ellert Grétarsson og kortagerðarmaður Hans H. Hanssen.

Umbrot Egill Baldursson ehf.