Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Aðstæðubundið sjálfræði

Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun

  • Ritstjórar Ástríður Stefánsdóttir, Guðrún Valgerður Stefánsdóttir og Kristín Björnsdóttir
Forsíða bókarinnar

Hverju vill fólk með þroskahömlun ráða í eigin lífi? Á það að stunda nám í háskóla? Hvernig má stuðla að bættu kynheilbrigði meðal þess? Hvernig má hindra nauðung og þvinganir á heimilum fólks með þroskahömlun?

Spurningarnar hér að framan og margar fleiri móta rannsóknina sem bókin Aðstæðubundið sjálfræði – Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun byggist á. Þar var unnið með femínískar kenningar um aðstæðubundið sjálfræði og þær notaðar til að greina rannsóknargögnin sem voru að mestu unnin samkvæmt eigindlegri rannsóknarhefð.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í nýlegum lögum um þjónustu við fatlað fólk er rétturinn til sjálfræðis og sjálfstæðrar ákvarðanatöku að fullu viðurkenndur. Þrátt fyrir þennan skýlausa rétt er enn langt í land að fólk með þroskahömlun njóti fullra mannréttinda og sjálfræðis á borð við aðra. Bókin lýsir hugmyndum sem gætu stuðlað að auknu sjálfræði í lífi fólks með þroskahömlun og aukið skilning á mikilvægi þess að það fái viðeigandi aðstoð til að taka sjálft ákvarðanir um eigið líf.

Bókinni er ætlað að vera kennsluefni í námi verðandi fagfólks ásamt því að veita þeim sem starfa með fötluðu fólki upplýsingar um hvernig styðja megi betur við sjálfræði fólks með þroskahömlun. Enn fremur getur bókin verið gagnleg fyrir aðstandendur fólks með þroskahömlun.