Útgefandi: Háskólaútgáfan

Andvari 2024

Aðalgrein Andvara 2024 er æviágrip Ragnhildar Helgadóttur fv. ráðherra eftir sagnfræðingana Rósu Magnúsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur. Ragnhildur var kjörin á þing aðeins 26 ára og sat á þingi í alls 23 ár. Hún var fyrsta konan sem var ráðherra í heilt kjörtímabil og ferill hennar er um margt merkilegur. 10 aðrar greinar eru í riti ársins.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Bragðarefur

Með molum úr gömlum textum sætum, súrum og beiskum

Bókin er hræringur af textum með ólíka áferð og bragð á tungu. Hér fara saman fróðleiks- og skemmtimolar í nokkurs konar bragðaref. Þeir eru tíndir saman úr margs konar handritum frá ýmsum tímum. Ætlunin er að veita lesendum innsýn í fjölbreytt lesefni fólks á fyrri tíð. Textarnir eru litríkir eins og sönnum ærslabelg sæmir.

Dauða­dómurinn

Bjarni Bjarnason frá Sjöundá (1761–1805)

Sjöundármálin eru almenningi vel kunn. Þeim hefur margsinnis verið lýst frá sjónarhorni yfirvalda en hér er sakborningnum sjálfum Bjarna Bjarnasyni gefið orðið. Sagan endurspeglar líf þessa 18. aldar almúgamanns sem ólst upp við nýstárlegar hugmyndir upplýsingarinnar um aga, refsingar og framfarir, einnig helvítisótta og utanbókarlærdóm á orð Guðs.

Ritsafn Sagnfræðistofnunar 45 Fornar Skálholtsskræður

Úr sögu nokkurra skinnhandrita frá Skálholti

Fornar Skálholtsskræður er um sögu þriggja skinnhandrita sem voru við biskupsstólinn í Skálholti. Fyrst er minnisbók sem biskupar höfðu meðferðis í vísitasíuferðum um 1500. Þá er fjallað um gamla námsbók úr prestaskóla Skálholts, þar sem er þýðing á íslensku úr klassískum kanónískum rétti.

Fötlun, sjálf og samfélag

Birtingarmyndir og úrlausnarefni

Fjallað er um líf og aðstæður fatlaðs fólks í ljósi gagnrýninna kenninga og íslenskra rannsókna á sviði fötlunarfræða. Athygli er beint að helstu viðfangs- og úrlausnarefnum ólíkra æviskeiða og að flóknu samspili félagslegra, efnislegra og stofnanabundinna hindrana sem skapa og viðhalda fötlun og torvelda fötluðu fólki að lifa góðu lífi.

Hugsandi skólastofa í stærðfræði

14 aðferðir sem styðja við nám og kennslu á öllum skólastigum

Íslensk þýðing á metsölubókinni Building Thinking Classrooms eftir Peter Liljedahl. Einstök handbók fyrir kennara í stærðfræði og öðrum faggreinum. Inniheldur ítarlegar leiðbeiningar um 14 aðferðir sem stuðla að virkri þátttöku nemenda, samræðum í skólastofunni og auknum hugtakaskilningi.

Lognmolla í ólgusjó

Kjósendur og alþingiskosningarnar 2021

Bókin leiðir lesendur í ferðalag um íslensk stjórnmál. Hér er fjallað um hvað mótar kosningahegðun almennings, áhrif fylgiskannana, flokkaflakk og hvernig ungt fólk og samfélagsmiðlar eru að breyta leiknum. Með einstökum gögnum Íslensku kosningarannsóknarinnar fást svör við spurningum sem gjarnan eru ræddar í heitum pottum landsins.

Víðerni

Verndun hins villta í náttúru Íslands

Óbyggð víðerni setja einkar sterkan svip á náttúru Íslands. Víðerni eru fágæt á heimsvísu sem eykur enn á mikilvægi þeirra hérlendis. Í þessu riti eru víðernin könnuð frá ólíkum sjónarhornum og leitað svara við ýmsum grunnspurningum um þau, svo sem hvað þau eru, hvaða gildi þau beri og hvernig verði best staðið að verndun þeirra.

Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar Þessi frægu glæpamál

Morðin á Sjöundá og Illugastöðum

Átta fullorðnir týndu lífinu og tíu börn innan við fermingu misstu foreldra sína í tveimur þekktustu morðmálum Íslandssögunnar á Sjöundá á Rauðasandi árið 1802 og Illugastöðum á Vatnsnesi árið 1828. Málin hafa orðið rithöfundum að yrkisefni og nokkuð er til af fræðilegri umfjöllun en sjálfir dómarnir hafa ekki verið gefnir út fyrr en á þessari bók.