Áttaskil
ljóð og lausavísur
Náttúruljóð eru í fyrirrúmi hjá skáldinu og kvæðakonunni en ýmislegt annað kemur líka við sögu. Í eftirmála segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku m.a.: „Þegar ljóð hennar eru lesin er eins og landið Ísland, með öllum sínum dyntum, veðurfarssveiflum og skapbrigðum hafi valið hana til að túlka sjónarmið sín.”
Ása Ketilsdóttir fæddist og ólst upp á Ytra-Fjalli í Aðaldal, en fluttist síðar að Laugalandi við Ísafjarðardjúp og hefur átt þar heima í næstum sjö áratugi. Það hefur löngum legið vel fyrir henni að orða hugsanir sínar ýmist í bundnu eða óbundnu máli. Hún hefur líka getið sér gott orð fyrir að halda til haga fornum kvæðalögum og kveða af list, auk þess að segja sögur og ævintýri.
Geisladiskurinn Vappaðu með mér Vala, þar sem Ása kveður ýmis kvæðalög og segir jafnframt sögur og ævintýri, kom út 2010 og ljóðabókin Svo mjúkt er grasið, úrval vísna og ljóða, árið 2012.