Brá fer á stjá
Skemmtileg barnabók fyrir börn á aldrinum 3-8 ára. Brá er sniðugt, fjólublátt skrímsli sem elskar að skapa og leita til nærumhverfisins að alls kyns sjálfbærum lausnum og listaverkum! Brá leggur af stað í leiðangur til að láta draum sinn rætast: Að fanga ský í krukku. Skyldi henni takast það?
Brá er hugmyndaríkt og skapandi skrímsli. Hana dreymir um að næla sér í bút af skýjahulu sem liggur eins og sykurpúði efst á lítilli hæð skammt frá heimili hennar. En þegar hún er orðin nógu stór til að fara þangað ein rekst hún á margt skrítið og forvitnilegt á leiðinni. Skyldi ferðalagið kannski verða enn betra en áfangastaðurinn? Brá fer á stjá er sniðug bók fyrir 3-8 ára börn. Hún hefur að geyma skemmtilegar aðferðir til að nýta nærumhverfið þegar kemur að skapandi lausnum í sjálfbærni og endurnýtingu.
Guðný Sara Birgisdóttir er menntuð í myndlist, hönnun og listkennslufræði. Í þessari bók nýtir hún allar þessar greinar og þekkingu sína í skemmtilegri bók skreyttri fallegum vatnslitateikningum. Guðný leggur áherslu á fallegt málfar og kynnir ný orð og orðatiltæki fyrir lesendum bókarinnar.