Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Sagan af Dimmalimm

  • Höfundur Guðmundur Thorsteinsson
Forsíða bókarinnar

Þetta er ævintýrið um Dimmalimm eftir Guðmund Thorsteinsson. Ný útgáfa er óður til sögunnar, bæði textans og myndanna sem þessi stórsnjalli listamaður skóp. Sagan er óbreytt en bókina prýða nýjar myndir.

Þetta fallega ævintýri eftir Guðmund, eða Mugg eins og hann var gjarnan kallaður, er ein þekktasta saga rituð af Íslendingi. Líkt og vill vera með góð ævintýri eru þau með tíð og tíma gefin út í mörgum ólíkum myndum. Þessi nýja útgáfa er óður til sögunnar, bæði textans og myndanna sem þessi stórsnjalli listamaður skóp. Upphafleg útgáfa er fjársjóður og nú bætist í safnið ný útgáfa til að njóta þessa verks, en í þessari útgáfu höfum við bætt við fleiri myndum til samræmis við útgáfuform nýlegri barnabóka.

Guðmundur Pétursson Thorsteinsson, oftast kallaður Muggur, var fæddur á Bíldudal 5. september 1891.

Muggur er einhver þekktasti myndlistamaður sem Ísland hefur alið. Hann lést aðeins 32 ára að aldri, vorið 1924.

Eitt þekktasta verk Muggs er altaristafla sem hann málaði árið 1921 á Ítalíu. Muggur var samkvæmt heimildum barngóður og mikið fyrir að segja sögur. Það er því kannski ekki að undra að hann hafi samið eina þekktustu barnabók sem gefin hefur verið út á Íslandi. Muggur myndskreytti jafnframt ljóðabókina Þulur eftir móðursystur sína Theodóru Thoroddsen. Einnig gerði hann myndir við barnakvæðið Tíu litlir negrastrákar.

Söguna Dimmalimm samdi hann fyrir systurdóttur sína, Helgu Egilson, á leið til Ítalíu í skipi árið 1921. Þökk sé foreldrum Helgu varðveittist handritið og var fyrst gefið út 1942 af bókabúðinni KRON. Á þeim tíma var ekki hægt að prenta myndir í lit á Íslandi svo bókin var prentuð á Englandi. Síðan þá hefur verkið komið út á ótal tungumálum.

Bróðurdóttir og alnafna Helgu Egilson hefur jafnframt unnið áfram með myndirnar og sett á keramíkmuni.