Ég er annar
Sjöleikurinn III-V
Önnur bókin af þremur í stórvirki norska Nóbelshöfundarins. Sjöleikurinn er magnþrungið verk um baráttuna við að rata rétta leið í lífinu og bregður jafnframt upp lýsandi myndum af aðstæðum og tíðaranda í norsku samfélagi á liðinni öld.
Listmálarinn Ási er að undirbúa jólasýningu í galleríi í Björgvin. Í borginni býr annar Ási sem líka er listmálari. Þeir nafnar eru vinir og á vissan hátt spegla þeir hvor annars líf.
Í þessum hluta verksins fær lesandinn innsýn í uppvaxtarár Ása í Bugðu. Við sögu koma feimnislegir kossar, reykingar og áfengisneysla, hljómsveitaræfingar og slagsmál, nöldrandi mamma og þolinmóður pabbi, flutningur að heiman og menntaskólaár. Fljótlega heldur listamaðurinn ungi og upprennandi sína fyrstu sýningu og vekur óvænta athygli sem veitir honum brautargengi.
Jon Fosse (f. 1959) er einn þekktasti og virtasti samtímahöfundur Norðmanna. Allt frá fyrstu bók sinni, Raudt, svart (1983) hefur hann helgað sig ritstörfum og sent frá sér skáldsögur, ljóð, leikrit, barnabækur og ritgerðir. Verk hans hafa verið þýdd og gefin út á meira en fimmtíu tungumálum og leikritin sviðsett um allan heim. Fosse hefur einnig lagt stund á bókmenntaþýðingar. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna bæði í heimalandinu og erlendis. Árið 2015 hlaut hann Bókmenntaverðaun Norðurlandaráðs fyrir þríleikinn Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, sem kom út á íslensku 2016. Frá árinu 2011 hefur Fosse búið í Grotten, heiðursbústað norska ríkisins fyrir listamenn.
Jon Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels 2023.