Ekkert hálfkák og sút

Vísur og kvæði eftir Hermann frá Kleifum

Forsíða bókarinnar

Í bók þessari birtast vel á annað hundrað vísur, auk nokkurra kvæða, eftir Hermann Kristin Jóhannesson frá Kleifum í Gilsfirði. Vísur hans um menn og málefni líðandi stundar eru óvenju snjallar og hafa sumar orðið landfleygar. Ragnar Ingi Aðalsteinsson annaðist útgáfuna og ritar inngang.

Ekkert hálfkák og sút

Vísur og kvæði eftir Hermann frá Kleifum

Einmitt þegar margir héldu að hin forna list lausavísunnar hefði lotið í lægra haldi fyrir nútímanum, varð það undur að hún gekk í endur­nýjun lífdaga, öllum að óvörum. Kannski var það einmitt miðlunartækni nútímans, internetið, sem blés nýju lífi í hefðbundna vísnagerð. Eitt er víst að nú fljúga daglega nýjar lausavísur, ferskeytlur og limrur, um netheima og hagyrðingamót eru vinsælar skemmtisamkomur víða um land. Um hagyrðinga gildir þó eins og margt annað að þar eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Einn hinna útvöldu er án nokkurs vafa Hermann Jóhannesson frá Kleifum í Gilsfirði. Vísur hans um menn og málefni líðandi stundar eru óvenju snjallar og hafa sumar orðið landfleygar – líka fyrir daga internetsins. Í þessari bók er safnað saman vísum og kvæðum Hermanns frá Kleifum, ekki síst þeim sem hafa orðið til á hagyrðingamótum.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson annaðist útgáfuna og ritar inngang og skýringar.

Hermann Kristinn Jóhannesson fæddist að Kleifum í Gilsfirði 10. október 1942 og þar ólst hann upp. Hann hefur komið víða við og gegnt ýmsum störfum um ævina. Þekktastur er hann þó sem hagyrðingur. Hann vann lengi sem þingfréttaritari og þá orti hann meðal annars um einn hæstvirtan fyrrverandi ráðherra:

Í fiskveiðum úrráð hann eygir

og oft er það rétt, er hann segir.

Meðan hlustað er á hann

er auðvelt að sjá hann

en svo hverfur hann þegar hann þegir.

Og um svipað leyti orti hann líka þessa:

Úr vinnunni hann fékk oft far með Hildi

en fattaði samt aldrei hvað hún vildi,

uns kvöld eitt, kát og rjóð,

þau keyrðu fram á stóð;

þá var eins og blessuð skepnan skildi.

Þessi bók hefur að geyma vel á annað hundrað vísur eftir Hermann og auk þess nokkur kvæði.