Niðurstöður

  • Bókaútgáfan Sæmundur

Banvæn mistök í íslenska heilbrigðis­kerfinu

Hvernig lifir móðir slíkan missi?

Bók Auðbjargar byggir á sjúkraskrám og dagbókum en í henni er rætt um fagleg og ófagleg viðbrögð við alvarlegum mistökum í meðferð sjúklinga, en einnig hvernig móðir getur lifað af missi og mætt viðbrögðum kerfisins. Saga Jóels Gauts (1999–2001) á erindi við alla þá sem tengjast heilbrigðiskerfinu, starfsfólk þess, sjúklinga og aðstandendur.

Bréfin hennar Viktoríu

Saga systkinanna frá Gýgjarhóli í Biskupstungum

Bókin rekur sögu systkina sem ólust upp á Gýgjarhóli í Biskupstungum í byrjun 20. aldar. Tilviljun réði því að sendibréf sem fóru á milli systkinanna og vina þeirra hafa varðveist og er sagan rakin í gegnum þessi bréf, þótt einnig sé stuðst við fleiri heimildir. Áhugaverð heimild um sveitarbrag og áhugamál ungs fólks fyrir einni öld síðan.

Drengurinn sem dó úr leiðindum

Þegar foreldrar Kára Hrafns taka frá honum öll snjalltæki og afhenda honum í staðinn skærgulan farsíma sem hæfir bara risaeðlum, gerist það óumflýjanlega – hann hreinlega deyr úr leiðindum! Höfundur hlaut frábæra dóma fyrir fyrstu bók sína Sólskin með vanillubragði og þessi er ekki síðri.

Eilífðarstef

Vatnsgutl við ísvök áar frosin þögn hjarns mynda eilífðarstef. Eilífðarstef er þriðja ljóðabók höfundar sem hefur að auki skrifað tvær ævisögur og rekið sauðfjárbú í Norðfirði og í Vestur-Ástralíu.

Ennþá vakir vísnaglóð

Höfundur var Skagfirðingur og bjó lengst af á Sauðárkróki þar sem hann stofnaði meðal annars og starfrækti minjasafn. Hann var afkastamikið skáld og hagyrðingur og eftir hann liggur mikið safn fjölbreytts kveðskapar. Bókin hefur að geyma úrval af ljóðum Kristjáns, valið af Ragnari Aðalsteinssyni sem jafnframt ritar formála.

Gaddavírsátið

og aðrar sögur

Í bókinni er úrval af smásögum eftir eitt umtalaðasta utangarðsskáld Íslandssögunnar, Jochum Magnús Eggertsson, sem tók sér skáldnafnið Skuggi. Skuggi var þekktur fyrir frumlegar kenningar, þrasgirni og frábæran skáldskap. Titilsagan er með fyndnari nóvellum sem skrifaðar hafa verið á íslensku.

Gagn og gaman I-II

Gagn og gaman var nær einráð við lestrarkennslu yngstu barna í hálfa öld. Bókin byggðist á hljóðaðferð við lestrarkennslu sem með þessari bók var innleidd í íslenskum skólum. Bækur þessar voru ófáanlegar um áratugi en hafa nú verið endurútgefnar, fyrst hvor í sínu lagi en nú í ár saman í einni skemmtilegri kilju.

Guðfaðir geðveikinnar

Úr dagbókarslitrum, minningarbrotum og skjalfestum heimildum

Höfundur rekur sögu geðheilbrigðisþjónustu á Akureyri og nágrenni, umbúðalaust og án vafninga. Ýmis atvik sýna óvænta fordóma gagnvart geðsjúkdómum, jafnvel þar sem þeirra var síst von. En jafnframt er hér að finna áhugaverða ættar- og ævisögu höfundar. Höfundur hefur áður sent frá sér ljóðabækur auk þýðinga á ritum um geðheilbrigðismál.

How Iceland Changed the World

Saga Íslands frá landnámi til vorra daga, rakin af fádæma hógværð með áherslu á framlag okkar til mannkynssögunnar. Bandaríska forlagið Penguin Random House gaf verkið út síðastliðið vor við góðar undirtektir. The New York Times segir þessa Íslandssögu Egils Bjarnasonar „skemmtilega sérstaka.” Tilvalin gjöf fyrir erlenda vini.

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú II

Höfundur rekur sögu löngu genginna fyrirkvenna, sögur sem faldar hafa verið í myrkviðum þöggunar og kynjamisréttis. Þrátt fyrir vakningu upplýsingaraldar var áfram fjallað um konur og líf þeirra eins og um væri að ræða meinlitla dýrategund sem deildi landi og kjörum með körlum. Frásögn Hildar gerir líf löngu genginna kvenna ljóslifandi fyrir lesendum.

Hylurinn

Hylurinn er dramatísk og spennandi saga af heillandi mannlífi, andlegum þroska, ástum og fallegri vináttu. En við hittum einnig fyrir hinar myrkustu hliðar mannlífsins og lesandinn dregst inn í spennu þar sem við sögu koma bein manns og hests í litlu heiðarvatni. Hylurinn er fyrsta bók höfundar sem hefur yfir að ráða næmum og fallegum stíl.

Iceland in World War II

Extended version

Höfundur rekur stríðsárasögu Íslands en enginn einn atburður hefur haft eins mikil áhrif á sögu landsins og seinni heimsstyrjöldin. Fyrir stríð var þjóðin ein sú fátækasta í Evrópu en eftir það í hópi hinna ríkari. Bókin, sem er skrifuð á ensku, kom fyrst út 2019 og er sú útgáfa uppseld. Hér er á ferðinni önnur og aukin útgáfa.

Jólahátíð í Björk

Systurnar Magga, Helga, Dóra, Ásta og Þóra undirbúa jólin með því að klæða dúkkurnar sínar í sitt fínasta púss. Þær klæðast sjálfar sínum fínustu kjólum og fá slaufu í hárið. Jólaandinn læðist yfir bæinn og þær halda jólin hátíðleg með fjölskyldunni. Falleg og einlæg frásögn sem kemur hverjum þeim sem les í sannkallað jólaskap.

Konan sem allt­af gekk á undan

Sögusvið í smásögum Ingimundar er kunnuglegt en teygir sig reyndar einnig til annarra landa. En rétt eins og höfundi lætur vel að skyggnast inn í ólgandi óreiðuna í hugum sögupersóna sinna vítt og breitt um veröldina, á ekki síður við hann að stíla fallegar stemningar um sína hjartans vini í ríki dýra, fugla, skordýra og plantna á Íslandi.

Landgræðslu­flugið

Endurheimt landgæða með eins hreyfils flugvélum

Hér er bæði lýst merkilegum þætti í íslenskri flugsögu og verðmætu framlagi til sögu landgræðslu. Höfundarnir voru þátttakendur í landgræðslufluginu nær alveg frá upphafi. Þeir segja hér sögu þessa ævintýris og birta um 200 sögulegar ljósmyndir af fluginu og landgræðsluverkefnunum á þessu tímabili sem spannar 35 ár.

Lög unga fólksins

Hnyttnar smásögur sem þó snerta á alvörumálum. Fortíðin er ekki langt undan; síðasta lag fyrir fréttir ómar úr gömlu Telefunken-útvarpstæki; fólk sýður bjúgu og hangikjöt; stöku menn halda kindur í fjárkofa heima við hús sín í bænum. Höfundur hefur áður sent frá sér fræðirit, ferðaþætti og fróðleikspistla í bókum og tímaritum.

Mannavillt

Dularfull dauðsföll gamalla vinnufélaga og gáleysislegt tal á bar setja furðulega atburðarás af stað. Mannavillt er nýstárleg íslensk glæpasaga þar sem lesandinn sogast inn í æsilega og blæbrigðaríka frásögn. Þessi fyrsta sakamálasaga höfundar hefur hlotið góða dóma.

Með grjót í vösunum

Bókin geymir minningar um horfinn tíma og svipmyndir af eftirminnilegu fólki á Skagaströnd, í Grindavík og víðar. Þetta er mikilsverð og bráðskemmtileg heimild um horfinn heim og harða lífsbaráttu sem lögð var á ungar herðar um miðja síðustu öld.