Niðurstöður

  • Bókaútgáfan Sæmundur

Allt sem þú vilt vita um Biblíuna

Víðar lendur Biblíunnar eru hér allar undir; hugljúfar ástarlýsingar Ljóðaljóðanna, grimmileg þjóðarmorð Gamla testamentisins, kærleiksboðskapurinn og erfðasyndin. En skrímslin eru heldur ekki látin óáreitt. Kvenfyrirlitning, hommafóbía og gyðingahatur kirkjunnar fá vægðarlausa umfjöllun, sem og hin aldagamla spurning um sannleiksgildi Biblíunnar.

Á heimaslóð

Alfreð Washington Þórðarson var einn þeirra sem settu sterkan svip á listalíf Vestmannaeyja á fyrri hluta og fram yfir miðja síðustu öld. Hann samdi mörg falleg og grípandi lög sem urðu vinsæl en önnur hafa smám saman gleymst. Með þessari útgáfu á 14 lögum Alfreðs við ljóð þekktra Eyjamanna leita lög hans heim til Eyja að nýju.

Álfadalur

Sönn saga um kynferðisofbeldi, þöggun og afleiðingar þess

Höfundur rekur hér sögu móður sinnar, Sigurbjargar Oddsdóttur frá Álfadal á Ingjaldssandi. Þetta er saga harðrar lífsbaráttu, hroðalegrar grimmdar og lamandi meðvirkni svo lesandann rekur í rogastans. En það er líka saga af ótrúlegri þrautseigju og viljastyrk konu sem tekst að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir hörmuleg áföll.

Ekkert hálfkák og sút

Vísur og kvæði eftir Hermann frá Kleifum

Í bók þessari birtast vel á annað hundrað vísur, auk nokkurra kvæða, eftir Hermann Kristin Jóhannesson frá Kleifum í Gilsfirði. Vísur hans um menn og málefni líðandi stundar eru óvenju snjallar og hafa sumar orðið landfleygar. Ragnar Ingi Aðalsteinsson annaðist útgáfuna og ritar inngang.

Endurminningar

Bókin veitir fágæta innsýn í líf alþýðukonu sem ólst upp í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar. Hér er að finna frásagnir af sögulegum atburðum, svo sem þjóðhátíðinni 1874, þjófnaðinum í Laugarnesstofu og samtímalýsingu á Katanesdýrinu. Í þessari útgáfu er fylgt handriti Guðrúnar en við fyrri útgáfu voru fáein atriði í handriti talin óviðeigandi.

Ég er nú bara kona

Ástarleit er örðugt starf / þótt oft það bæti þroska. / Til að krækja í kóngsson þarf / að kyssa marga froska. Fyrsta bók höfundar sem hefur verið hluti af hagyrðingasamfélaginu um árabil. Eftir hana hafa birst vísur og kvæði sem hafa vakið verðskuldaða athygli, enda hefur hún næmt eyra fyrir brag og ljóð hennar eru vel ort, frumleg og grípandi.

Ég hringi í bræður mína

Bílsprengja hefur sprungið í Stokkhólmi. Amor, ungur maður af arabískum uppruna, þvælist um dauðskelfda borg. Umfram allt verður hann að hegða sér ofureðlilega. Í sólarhring fylgist lesandinn með hugrenningum Amors þar sem mörkin milli fórnarlamba og glæpamanna, ástar og efnafræði, vænisýki og veruleika verða sífellt óljósari.

Fræðabálkur að ferðalokum

Efni skráð 2020-2021

Í þessari bók rekur Þórður Tómasson (1921–2022) meðal annars gamalt orðafar um raddfæri og málfar, geð- og skapbrigði, svefn og svefnhætti, fjallar um lækningajurtir og matargerð fyrri alda og greinir frá margvíslegum fróðleik um mannlíf og menningu fyrri tíðar undir Eyjafjöllum og víðar um Suðurland. Í bókarauka birtist ítarleg ritaskrá höfundar.

Föli skúrkurinn

Berlín 1938. Í hitamollu síðsumars stefnir Evrópa í stórstyrjöld en í skugga þeirra stórviðburða gengur laus í Berlín fauti sem drepur eingöngu ljóshærðar og bláeygar táningsstúlkur. Einkaspæjarinn Bernie Gunther álpast á slóðir glæpamanna jafnt sem Gestapohrotta. „... einfaldlega uppáhalds spennusagnahöfundurinn minn.“ (Egill Helgason).

Homo Sapína

Fía, Inuk, Sara, Arnaq og Ivinnguaq eru öll í leit að ástinni og sjálfum sér í ísköldum grænlenskum veruleika. Niviaq Korniliussen er fædd í Nuuk árið 1990. Hún fékk lof fyrir Homo Sapína sem var tilnefnd til Norðurlandaráðsverðlauna 2015, en verðlaunin fékk hún svo í fyrra fyrir Blómadalinn sem kemur út á íslensku 2023.

Í morgunsárið

Aðeins lítið augnablik, / alda rís og kveður. Rúnar Þorsteinsson fæddist á Stöðvarfirði árið 1956 og settist að erlendis 25 ára gamall. Í langri útivist hefur hin hefðbundna íslenska ljóðagerð viðhaldið móðurmálinu og verið höfundi til dægrastyttingar. Í morgunsárið er fyrsta bók höfundar.

Launstafir tímans

Úr hugskoti Heimis Steinssonar

Þessi bók geymir brot af höfundarverki Heimis Steinssonar (1937–2000). Hér er að finna upphaf sjálfsævisögu, skrif um æskustöðvar á Seyðisfirði, ræður frá Skálholts-, Þingvalla- og útvarpsstjóraárum. Allt er það fleygað með ljóðum.

Lifað með landi og sjó

Höfundur er Strandamaður að ætt og uppruna. Lifað með landi og sjó er sjöunda bók Jóns og fyrsta ljóðabók hans. Ljóðin eru persónuleg – óður til náttúru Íslands og sögu lands og þjóðar. Ása Önnu- og Ólafsdóttir myndskreytti.

Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar

Verk Lúkíans, sem uppi var á 2. öld, nutu lengi mikilla vinsælda, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Hér birtast þau í óviðjafnanlegum þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar sem varðveittar eru í handritum skólapilta. Már Jónsson bjó til prentunar og skrifar ítarlegan inngang.

Millibilsmaður

Heimildaskáldsaga frá fyrstu árum 20. aldar. Læknishjón eru nýflutt að norðan. Í Reykjavík geisar mikið fár yfir hinni nýju stefnu, spíritismanum. Bærinn er klofinn, jafnt í afstöðu sinni til sjálfstæðismála sem spíritisma, þar sem vísindi og trú eiga að fallast í faðma. Læknirinn er krafinn svara um hin dularfullu fyrirbrigði á miðilsfundum.

Og svo kom vorið

Smásögur

Sprengitilræði í Hvalfirði, kveflæknandi hrútspungar, læknar með gálgahúmor, Nóbelsskáldið – í þessu smásagnasafni raðast saman sögur af hversdagslegu en óvenjulegu fólki og aðstæðum sem það kann að rata í. Sumt er fyndið, annað grátbroslegt. Smásagnasafnið Og svo kom vorið er fyrsta bók læknisins Guðjóns Baldurssonar.

Óvissa

Horfinn eiginmaður, kafbátaumferð í Reykjavíkurhöfn að næturþeli og ímyndunarveikur unglingur. Allt eru þetta óvæntar hliðar á nýju máli sem vinirnir Linda Lilja og Gabríel sogast inn í. Hörkuspennandi bók þar sem gullleit, njósnir og glæpir koma við sögu. Sjálfstætt framhald Mannavillt sem kom út 2021 og hlaut góða dóma.

Rauði þráðurinn

Ný og aukin útgáfa

Beitt pólitísk ævisaga, skrifuð af þekkingu á þróun síðustu áratugi. Hér er horft fram á veginn og lagst á sveif með þeim sem vilja vefa hinn rauða þráð. Kom fyrst út í ársbyrjun og er hér endurútgefin með viðauka þar sem reifuð eru stjórnmál yfirstandandi árs. „Örugglega besta bók sem ég hef lesið um íslensk stjórnmál.“ (Frosti Sigurjónsson)