Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Eyjar

Mæðgurnar Katrín og Magdalena hafa orðið til skiptis í sögu fjölskyldu þar sem allt virðist ósköp slétt og fellt. En brátt verður ljóst að innan fjölskyldunnar krauma leyndarmál! Þessi hrífandi saga er römmuð inn af stórbrotnu sögusviði Breiðafjarðar. Þetta er önnur bók höfundar en fyrri bók, Hylurinn (2021), hlaut afar góðar viðtökur.

Gröf minninganna

Fátækt og rótleysi setja sterkan svip á æsku ungrar stúlku og lesandinn horfir á heiminn með hennar augum. Við sögu kemur einnig eftirminnileg þátttaka nokkurra Íslendinga í borgarastyrjöldinni á Spáni á 4. áratug síðustu aldar. Undarleg tilviljun veldur því að stúlkan fær stórt hlutverk í kvikmynd við upphaf íslenska kvikmyndavorsins.

Hefndir

Maður fer austur fyrir fjall um hávetur og kveikir í sumarbústað þar sem einn lætur lífið. Ári síðar er ung kona numin á brott á íslensku farþegaskipi og flutt til Brasilíu. Hún sleppur og mannræninginn finnst myrtur. Þriggja manna teymi lögreglumanna reynir að leysa gátuna. Hefndir er sérlega vel skrifuð sakamálasaga um skipulagða glæpastarfsemi.

Hold og blóð

Saga mannáts

Hér er saga mannáts rakin allt aftur í bernsku mannkyns og grafist fyrir um tákngildi þess, merkingu og orsakir sem liggja að baki. Um leið varpar höfundur ljósi á áhrif þessarar ævafornu iðju á langlífar goðsagnir og venjur, allt frá vampírum og varúlfum til altarissakramentisins, og tengir við sagnir um mannæturaðmorðingja nútímans.

Kona á buxum

Heimildaskáldsaga um Þuríði formann á Stokkseyri sem varð strax á barnsaldri dugandi sjómaður og gekk uppkomin á buxum. Hún fór ótroðnar slóðir og varð fræg fyrir að koma óvænt upp um illræmda glæpamenn í Flóanum. Höfundur sem á sér langa sögu í heimi fræða hefur kafað djúpt í heimildir um Þuríði sem um tíma gekk undir nafninu Þormóður.