Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Allt sem þú vilt vita um Biblíuna

Víðar lendur Biblíunnar eru hér allar undir; hugljúfar ástarlýsingar Ljóðaljóðanna, grimmileg þjóðarmorð Gamla testamentisins, kærleiksboðskapurinn og erfðasyndin. En skrímslin eru heldur ekki látin óáreitt. Kvenfyrirlitning, hommafóbía og gyðingahatur kirkjunnar fá vægðarlausa umfjöllun, sem og hin aldagamla spurning um sannleiksgildi Biblíunnar.

Álfadalur

Sönn saga um kynferðisofbeldi, þöggun og afleiðingar þess

Höfundur rekur hér sögu móður sinnar, Sigurbjargar Oddsdóttur frá Álfadal á Ingjaldssandi. Þetta er saga harðrar lífsbaráttu, hroðalegrar grimmdar og lamandi meðvirkni svo lesandann rekur í rogastans. En það er líka saga af ótrúlegri þrautseigju og viljastyrk konu sem tekst að lifa innihaldsríku lífi þrátt fyrir hörmuleg áföll.

Endurminningar

Bókin veitir fágæta innsýn í líf alþýðukonu sem ólst upp í Reykjavík á seinni hluta 19. aldar. Hér er að finna frásagnir af sögulegum atburðum, svo sem þjóðhátíðinni 1874, þjófnaðinum í Laugarnesstofu og samtímalýsingu á Katanesdýrinu. Í þessari útgáfu er fylgt handriti Guðrúnar en við fyrri útgáfu voru fáein atriði í handriti talin óviðeigandi.

Ég er nú bara kona

Ástarleit er örðugt starf / þótt oft það bæti þroska. / Til að krækja í kóngsson þarf / að kyssa marga froska. Fyrsta bók höfundar sem hefur verið hluti af hagyrðingasamfélaginu um árabil. Eftir hana hafa birst vísur og kvæði sem hafa vakið verðskuldaða athygli, enda hefur hún næmt eyra fyrir brag og ljóð hennar eru vel ort, frumleg og grípandi.

Fræðabálkur að ferðalokum

Efni skráð 2020-2021

Í þessari bók rekur Þórður Tómasson (1921–2022) meðal annars gamalt orðafar um raddfæri og málfar, geð- og skapbrigði, svefn og svefnhætti, fjallar um lækningajurtir og matargerð fyrri alda og greinir frá margvíslegum fróðleik um mannlíf og menningu fyrri tíðar undir Eyjafjöllum og víðar um Suðurland. Í bókarauka birtist ítarleg ritaskrá höfundar.

Föli skúrkurinn

Berlín 1938. Í hitamollu síðsumars stefnir Evrópa í stórstyrjöld en í skugga þeirra stórviðburða gengur laus í Berlín fauti sem drepur eingöngu ljóshærðar og bláeygar táningsstúlkur. Einkaspæjarinn Bernie Gunther álpast á slóðir glæpamanna jafnt sem Gestapohrotta. „... einfaldlega uppáhalds spennusagnahöfundurinn minn.“ (Egill Helgason).

Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar

Verk Lúkíans, sem uppi var á 2. öld, nutu lengi mikilla vinsælda, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Hér birtast þau í óviðjafnanlegum þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar sem varðveittar eru í handritum skólapilta. Már Jónsson bjó til prentunar og skrifar ítarlegan inngang.

Millibilsmaður

Heimildaskáldsaga frá fyrstu árum 20. aldar. Læknishjón eru nýflutt að norðan. Í Reykjavík geisar mikið fár yfir hinni nýju stefnu, spíritismanum. Bærinn er klofinn, jafnt í afstöðu sinni til sjálfstæðismála sem spíritisma, þar sem vísindi og trú eiga að fallast í faðma. Læknirinn er krafinn svara um hin dularfullu fyrirbrigði á miðilsfundum.

Óvissa

Horfinn eiginmaður, kafbátaumferð í Reykjavíkurhöfn að næturþeli og ímyndunarveikur unglingur. Allt eru þetta óvæntar hliðar á nýju máli sem vinirnir Linda Lilja og Gabríel sogast inn í. Hörkuspennandi bók þar sem gullleit, njósnir og glæpir koma við sögu. Sjálfstætt framhald Mannavillt sem kom út 2021 og hlaut góða dóma.