Feluleikir
„Það er svo mikil einlægni á fjöllum“
Sögur hafa ávallt verið akkeri Örnu í lífinu en í kjölfar árásar á unga konu og feluleikja fólks sem stendur henni nærri, sogast hún og fjölskyldan öll, inn í atburðarás sem hún hefur enga stjórn á og veit ekki hverjum má treysta. Litlu munar að feluleikur verði sannleikanum yfirsterkari.
„Aumingja unga konan sem stendur með elskhuganum, og hann í fangelsi grunaður um líkamsárás, eða jafnvel morðtilraun. Ætlar hún virkilega að halda áfram að vera með svona manni?“
Elskhuginn er sjarmerandi á allan hátt en Arna óttast að hann eigi vingott við fleiri konur. Hún á flókna fjölskyldu þar sem erfiðum málum hefur í gegnum tíðina verið sópað undir teppi eða sett inn í skáp. Nýjar vendingar varpa ljósi á það sem lengi hefur verið vandlega falið.
Arna sér meira en aðrir og finnur á fjöllum nokkuð sem enginn átti von á og hefur afdrifarík áhrif á líf hennar og allra í kringum hana.
Sagan segir af ást og afbrýðisemi, trausti og tortryggni, gömlu fólki og ungu, hinsegin fólki og öðru fólki og eitthvað koma framliðnir líka við sögu.
Sagan gerist haustið 2006 í Fljótshverfi, Reykjavík, Öræfum og á austfirsku heiðunum.
Lilja Magnúsdóttir hefur áður skrifað smásagnasafnið Gaddavír og Gotterí og tvær skáldsögur: Svikarann og Friðarsafnið. Svikarinn var tilnefndur til skáldsagnaverðlauna á Storytel.