Ritsafn Sagnfræðistofnunar 45 Fornar Skálholtsskræður
Úr sögu nokkurra skinnhandrita frá Skálholti
Fornar Skálholtsskræður er um sögu þriggja skinnhandrita, sem voru í Skálholti en eru nú í Árnasafni. Fyrst er fjallað um og gefnar út leifar af minnisbók sem Skálholtsbiskupar hafa haft meðferðis í vísitasíuferðum sínum um landið á síðari hluta 15. aldar og í upphafi hinnar 16.
Næst er fjallað um handrit, sem virðist vera gömul námsbók úr prestaskóla Skálholts, þar er þýðing á íslensku úr klassískum kanónískum rétti, sem hér er gefin út. Aftast í handritinu eru ómetanlegar og einstakar heimildir til íslenskrar og norskrar sögu á 12. öld. Að lokum er fjallað um eitt merkasta lagahandrit íslenskt frá miðöldum, „Skálholtsbók hina eldri og betri“, efni hennar og uppruna.