Frá Hamborg að Borgum
Um lífshlaup Margotar Gamm
Margot Gamm fluttist 17 ára gömul til Íslands frá Þýskalandi eftir að hafa lifað af hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Kornung giftist hún sér tuttugu árum eldri manni, Skírni Hákonarsyni, og gerðist bóndakona á gamalgrónu sveitaheimili. Þar ólu hjónin upp fimm börn. Hún varð ekkja 48 ára gömul, hætti þá búskap og tók að sinna kennslustörfum.
Í bókinni er sagt frá viðburðaríkri ævi Margotar Gamm (1931- 2007), stúlku sem upplifði hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar í Hamborg í Þýskalandi. Rakin eru tildrög þess að henni bauðst, 17 ára gamalli, að gerast húshjálp í eitt ár í Kaupfélagshúsinu á Höfn í Hornafirði. Örlögin höguðu því svo til að fljótlega kynntist hún Skírni bónda Hákonarsyni á Borgum í Nesjum. Þau giftust árið 1950, hún nýorðin 19 ára en hann 39 ára. Í Borgum ólu hjónin upp fimm börn sem fæddust á árunum 1951 til 1963. Margot óx inn í sveitalífið og íslenskt samfélag, í veruleika sem var órafjarri því sem hún hafði alist upp við og kynnst heima í Hamborg.
Fljótlega kom í ljós að tilveran í dreifbýlinu reyndist erfiðari heldur en Margot hafði búist við. Hún hafði flutt á bóndabæ langt uppi í sveit þar sem þægindi voru lítil, einkum fyrstu árin. Olíukynding kom í húsið 1951, rafmagn var leitt í bæinn 1960 og gott rennandi vatn var tengt þar í krana árið 1965. Margot tókst á við þessar aðstæður með jákvæðni, óbilandi dugnaði og góðum aðlögunarhæfileikum. Hún skirrtist ekki við að þræla myrkranna á milli. Lítill tími gafst til að velta sér upp úr fortíðinni, sem varð fljótt býsna fjarlæg og óraunveruleg. Stundum var hún þó við það að bugast á aðstæðunum, sem hún hafði fjötrað sig í ung að árum. Dró hún ekki dul á það við ritun endurminninga sinna.
Margot missti eiginmanninn 48 ára gömul eftir að Skírnir hafði barist við taugahrörnunarsjúkdóminn MND í tvö ár. Að verða ekkja markaði skörp tímamót í lífi Margotar. Hún skipti um starfsvettvang, hætti búskap og tók að kenna handmennt og þýsku við grunnskólana í Hornafirði. Hún fór á eftirlaun árið 1999 eftir ríflega tveggja áratuga, farsæl störf. Á sumrin heimsótti hún gjarnan þau börn og barnabörn sín, sem á þeim tíma bjuggu erlendis við nám eða störf. Í leiðinni kom hún við í Hamborg þar sem hún sótti gjarnan námskeið á ýmsum sviðum listsköpunar, lærði þar til dæmis batík og silkimálun. Í leiðinni heimsótti hún svo ættingja sína og vini. Heim komin hagnýtti hún nýfengna þekkingu svo við kennslu og námskeiðshald.
Ýmsar heimildir fundust sem hægt var að nota við bókarskrifin. Fyrst ber að nefna endurminningar Margotar sem hún ritaði, að áeggjan höfundar bókarinnar, eftir að hún komst á eftirlaun. Textann ritaði hún á móðurmálinu og fjallaði þar meðal annars um uppvaxtarárin í Þýskalandi, komuna til landsins og lífið sem beið hennar eftir að hún gerðist húsfreyja í Borgum. Höfundur studdist einnig við viðtöl sem birtust í Héraðsfréttablaðinu Eystrahorni sem og 60 sendibréf sem Margot hafði ritað vinkonu sinni í Hamborg á árunum 1970 til 1987. Bréfunum hafði verið safnað saman, raðað í tímaröð og þau send aðstandendunum til Íslands með þeim orðum að þau bæri að varðveita því þau geymdu ómetanlegar samtímaheimildir um líf og störf Margotar í Borgum. Reyndust það orð að sönnu.
Bókin fæst hjá höfundi, Karli Skírnissyni, karl.skirnisson@gmail.com, Víðihvammi 3, Kópavogi og hjá Hjördísi Skírnisdóttur, hjordis@fas.is, Hrísbraut 14, Höfn.