Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Höfuðdagur

Sendibréf til móður minnar á 100 ára afmælisdegi hennar

  • Höfundur Ingólfur Sverrisson
Forsíða bókarinnar

Hvað bíður ungs barns sem misst hefur báða foreldra sína? Hvernig varð líf móður minnar eftir að hún varð niðursetningur? Var fólkið gott við hana? Hvernig leið henni á nýjum stað? Hvað varð af hinum systkinunum? Hér bregður höfundur sér aftur í barnæsku móður sinnar á Stokkseyri og svarar þessum spurningum og mörgum fleiri.

Úr aðfararorðunum:

"Aldrei líður úr minni hvað mér brá hastarlega við lestur upphafs Brekkukotsannáls Halldórs Laxness þar sem segir: „Vitur maður hefur sagt aðnæst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föðursinn.” Viðbrögð mín við lestur þessarar setningar áttu eflaust rætur að rekja til þeirrar staðreyndar að móðir mín hafði lent í slíkum hremmingum á ungum aldri og misst báða foreldra sína sex ára. Stóð hún þá ein uppi algjörlega umkomulaus,orðin hreppsómagi og vistuð hjá ókunnu fólki á Stokkseyri. Þar var hún næstutíu árin og sveitarfélagið borgaði með henni. Hvernig í ósköpunum skáldið komst að þeirri niðurstöðu að slík og þvílík örlög gætu í einhverjum skilningi verið holl börnum var mér fullkomin ráðgáta. Sönnu nær að tala um óblíð örlög eða jafnvel hörmungar á tímum þegar velferðarkerfi nútímans voru langt undan og lítið mátti út af bera til að allt færi í hnút hjá börnum við misjafnar aðstæður.Eftir því sem árin liðu varð mér meir hugsað um hvernig móðir mín gat komist af eftir að hafa misst foreldra sína sem voru henni og systkinum hennar ákaflega kær enda viðurkennt sómafólk. Hvernig voru aðstæður í þurrabúðinni í Nýjabæá Stokkseyri áður en þau féllu frá? Hvað gerði fjölskyldan til að lifa af við kröpp kjör og hvernig undi fólkið sér við leik og störf? Hvers vegna dó afi í blóma lífsins og síðan amma aðeins 46 ára gömul fullkomlega bjargarlaus með barnahópinn sinn? Hvernig var líf móður minnar eftir að hún varð niðursetningur næstu tíu árin? Náði hún áttum við þessar aðstæður? Var fólkið gott við hana og hvernig leið henni á nýjum stað? Hvað varð af hinum systkinunum? Hvers vegna flutti hún sextán ára norður á Akureyri um það leyti sem hún fór af sveitarstyrknum og varð að bjarga sér sjálf?

Allar þessar og enn fleiri spurningar hrönnuðust í stóran stabba en .væi miður bar mér ekki gæfa til að bera þær undir móður mína áður en hún lést langt fyrir aldur fram árið 1991. Frekar en að sætta mig við eigin fáfræði um örlög móður minnar og aðstæður í æsku tók ég á það ráð að reyna að safna saman staðreyndum sem gætu svarað einhverjum spurninganna og geta síðan í eyðurnar með góðra manna hjálp."

Útkomuna er að finna í þessari fróðlegu bók Ingólfs Sverrissonar sem vafalítið snertir tilfinningar margra.