Hormóni og fleira fólk

Missannar sögur frá síðustu öld

Forsíða bókarinnar

Í þessari bráðskemmtilegu bók er víða komið við og ekki vantar í hana húmorinn. Hér stíga fjölmargir á stokk, þekktir og minna þekktir, og útkoman gæti ekki verið betri!

Hallgrímur „redbody“ Hallgrímsson, stúdent við Kaupmannahafnarháskóla í byrjun síðustu aldar, kemst að alvarlegum afleiðingum áfengisdrykkju þegar kviknar í næturgagninu.

Ólafur Þ. Halldórsson er ráðinn dómtúlkur í eigin máli þegar hann er fundinn sekur um innflutning á tveimur pottflöskum af viskíi á bannárunum.

Líki þarf að koma á Hólmavíkurrútuna og Osvald Eyvindsson útfararstjóri fær aðstoð frá bókarhöfundi, Halldóri Ólafssyni, við flutninginn á dimmum vetrarmorgni.

Malarnám í Grábrók er stöðvað með vopnavaldi og fortölum jarðfræðinganna Tómasar Tryggvasonar og Sigurðar Þórarinssonar.

Finnur Guðmundsson fuglafræðingur hleypur hægar en hann gengur.

Guðmundur Jónsson fjallabílstjóri aðstoðar Steingrím Hermannsson, rafmagnsverkfræðing og síðar forsætisráðherra, við að "láta ljósið skína".

Beitilönd „astronauta“ á miðhálendinu eru könnuð og Guðmundur E. Sigvaldason jarðfræðingur kemur „hormóni“ frá Ameríku.

Þetta er bara örlítið brot af því sem lesa má um í þessari bráðskemmtilegu bók Halldórs Ólafssonar, sem starfaði lengi sem tæknimaður á Norrænu eldfjallastöðinni, og þar áður í allmörg ár hjá Olíuverslun Íslands. Störf hans fólu í sér ferðalög vítt og breitt um landið og leiddu til kynna af fjölmörgu fólki sem sumt kemur hér við sögu.