Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Hraunholt í Hnappadal

Mannlíf og minningar

  • Höfundur Reynir Ingibjartsson
Forsíða bókarinnar

Í þessari bók segir frá mannlífi og minningum sem tengjast bænum Hraunholtum í Hnappadal. Sögumaður er Reynir Ingibjartsson sem ólst þar upp með móður sinni og afa. Ellefu ára gamall fór Reynir að skrá í litlar vasabækur, flest það sem tengdist búskapnum, mannlífinu og leikjum sem hann bjó til. Fróðleg og skemmtileg bók um veröld sem var.

Þegar Reynir Ingibjartsson fór að skoða vasabækurnar sem hann hafði skráð í nánast allt mögulegt á bernskuárunum sínum í Hraunholtum í Hnappadal, þá rann upp fyrir honum að þær væru kannski sérstök heimild um lífsbaráttuna á afskekktu smábýli í fjallasal Hnappadalsins. Líka heimild um leiki barns sem átti sér enga leikfélaga og bjó sér til heim að leika sér í.

Til varð þorpið Krummahóll með mörgum götum, torgum, görðum og þjónustubyggingum. Þá var spennandi beljukeppnin, þar sem kýrnar kepptu um að verða fyrstar í mark. Allar bifreiðakomur voru skráðar, heyskapur, silungsveiði, gestakomur og margt, margt fleira. Engir leikfélagar voru á bænum og þá var bara að búa til eigin leiki.

Bylting varð á bænum og reyndar í þessum afskekkta dal, þegar Magnús, afi Reynis, keypti jeppa 1946. Hætt var að slá með orfi og ljá og sláttuvél tengd við jeppann. Nýr tími tók við af þeim gamla um miðja síðustu öld.

Svo gerðust ævintýri. Víkingaskip í formi hótels, sigldi á Hlíðarvatni og merkir hellar fundumst þar sem meintur sakamaður frá Sturlungaöld, leyndist í helli.

Svo kom í leitirnar, gagnmerk frásögn Magnúsar afa af lífshlaupi hans sem vissulega var engin dans á rósum. Hann keypti Hraunholt 1915 og bjó þar í 50 ár og margt fleira má finna í bókinni.

Í dag skauta margir fram hjá Hnappadal í ferðum um Snæfellsnes. Lengi var dalurinn ótrúlega afskekktur og innstu bæir komust ekki í vegarsamband fyrr en um miðja síðustu öld. Þá skorti bæði síma og rafmagn. Svo kom Heydalsvegur og þá var Hnappadalurinn allt í einu kominn á kortið. Þarna átti sögumaður sín æskuspor með hraunum, vötnum og tignarlegum fjallahring.