Launstafir tímans

Úr hugskoti Heimis Steinssonar

Þessi bók geymir brot af höfundarverki Heimis Steinssonar (1937–2000). Hér er að finna upphaf sjálfsævisögu, skrif um æskustöðvar á Seyðisfirði, ræður frá Skálholts-, Þingvalla- og útvarpsstjóraárum. Allt er það fleygað með ljóðum.

„Manstu bernskudaga þína þegar veröldin laukst upp í öllum sínum margbreytileika? Manstu blóm á engi, stjörnu á himni, alkyrran vatnsflöt? Manstu elskuna í andliti foreldra þinna? Manstu gleði góðra bóka, ljóðs og sögu? Manstu hvernig skólinn bauð fram hvers konar fróðleik? Kannastu við það að þessar gjafir urðu þér veganesti meðan ævin endist?“

...

Heimir var prestur en einnig skólameistari í Skálholti, fræðimaður, háskólakennari, útvarpsstjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Hann var hugsjónamaður um málrækt og þjóðleg menningar­verðmæti, náttúruvernd og velferðarsamfélagið. Lýst er menntun hans frá bernsku – hvernig hann mótaðist af fólki sem hugsaði stórt, var orðinn ljóðskáld á unglingsaldri, átti glæsilegan náms­feril og þreyttist aldrei á að afla dýpri skilnings á tilverunni.

Úr formála Atla Harðarsonar.