Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Lúkíansþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar

  • Höfundur Lúkíanus frá Samosata
  • Þýðandi Sveinbjörn Egilsson
  • Ritstjóri Már Jónsson
Forsíða bókarinnar

Verk Lúkíans, sem uppi var á 2. öld, nutu lengi mikilla vinsælda, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar. Hér birtast þau í óviðjafnanlegum þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar sem varðveittar eru í handritum skólapilta. Már Jónsson bjó til prentunar og skrifar ítarlegan inngang.

„Því ert þú að hlæja Karon? og því hefur þú yfirgefið kænuna þína og ert kominn hingað, þar sem þú þó allt til þessa dags hefur aldrei verið vanur að skeyta um það sem fram fer ofanjarðar?“

Svo spyr guðinn Hermes ferjumanninn Karon í byrjun samræðu eftir Lúkían frá Samosata sem uppi var á 2. öld að voru tímatali, meistara skopsins og einn frumlegasta höfund grískrar fornaldar. Þeir félagar hlaða upp fjöllum til að sjá almennilega en sjónarhornið verður öfugsnúið engu að síður og fyrir vikið sprenghlægilegt.

Verk Lúkíans nutu mikilla vinsælda um langt skeið, ekki síst til kennslu í forngrísku, meðal annars við Bessastaðaskóla á fyrstu áratugum 19. aldar.

Hér birtast í óviðjafnanlegri þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar samræðurnar „Karon“ og „Tímon“ en jafnframt varnar­ræða Prómeþeifs og nokkur skondin samtöl grískra guða, að ógleymdri frásögn Lúkíans af draumi í æsku um það hvað hann nú ætti að taka sér fyrir hendur. Þýðingar Sveinbjarnar eru varðveittar í handritum skólapilta.

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, bjó þær til prentunar og skrifar ítarlegan inngang.