Mæður og synir

Forsíða bókarinnar

Theodor Kallifatides heldur hér sínu striki og er sjálfur í miðju frásagnarinnar. Að þessu sinni fer hann frá Svíþjóð til gamla heimalandsins, Grikklands, og heimsækir móður sína á tíræðisaldri í Aþenu. Um leið rifjar hann upp endurminningar föður síns og tengir uppruna- og ættarsögu við samtal þeirra mæðgina um lífið og tilveruna.

Fortíð og nútíð kallast á og gömul leyndarmál eru afhjúpuð. Minningar og móðurkærleikur eru leiðandi stef og höfundurinn lýsir hlutverki móðurinnar í lífi sonarins á hjartnæman og hrífandi hátt.

Mæður og synir er áhugavert og sannfærandi framhald af bókinni Nýtt land utan við gluggann minn sem hlaut afbragðs góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda.

Theodor Kallifatides fæddist árið 1938 í bænum Molai í Lakoníu á Pelópsskaga á Grikklandi. Eftir stúdentspróf í Aþenu stundaði hann nám við leiklistarskóla Karolos Koun og lauk 27 mánaða herskyldu, en fluttist til Svíþjóðar árið 1964. Þar vann hann margvísleg störf ásamt því að lesa verk Strindbergs með hjálp orðabóka til að læra sænska tungu og nam heimspeki við Háskólann í Stokkhólmi. Að loknu kand. fil. prófi árið 1967 kenndi hann í nokkur ár við Stokkhólmsháskóla og var um hríð ritstjóri hins þekkta bókmenntatímarits Bonniers Litterära Magasin. Fyrsta ljóðabók Kallifatides, Minnet i exil, kom út árið 1969 og síðan þá hefur hann sent frá sér tugi bóka – skáldsögur, ljóð, hugleiðingar, ferðasögur og glæpasögur – sem hafa verið þýddar á yfir tuttugu tungumál. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og er einn virtasti og mest lesni rithöfundur Svía.