Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Myndir og minningar af Ströndum

Forsíða kápu bókarinnar

Í bókinni er sagt frá lífinu á Ströndum frá ólíkum sjónarhornum. Yfir 40 einstaklingar rifja upp minningar í stuttum þáttum og velja ljósmynd til að birta með. Hér er að finna skemmtilegar og fjölbreyttar frásagnir Strandafólks sem bregður upp svipmyndum frá síðustu öld. Daglegt líf, eftirminnilegar persónur og einstakir viðburðir eru rifjaðir upp.

Bókin Myndir og minningar af Ströndum er gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Sauðfjárseturs á Ströndum sem er safn og menningarmiðstöð í héraðinu. Kallað var eftir minningum Strandafólks í bókina og það beðið að skrifa stuttan pistil frá persónulegu sjónarhorni og láta eina ljósmynd sem þeim þykir vænt um fylgja sínum pistli. Viðbrögðin voru ljómandi góð og yfir 40 manns skrifa í bókina. Hér er fjallað um lífið á Ströndum og fjölbreyttar raddir höfundanna fá að hljóma.

Myndirnar og minningarnar eru fjölbreyttar og viðfangsefnin margvísleg. Sagt er frá ævintýralegum ferðalögum og ýmsu sem fyrir ber, fjölskyldusögum og fólki sem veittu höfundinum innblástur. Fjallað er um dýr sem snertu við fólki, búskap og sjósókn. Rifjaðar eru upp minningar úr bernsku, talað um leiki, leikföng og jólin fyrr á tímum. Glöggt má sjá sterk tengsl fólks við það svæði sem það ólst upp á og býr jafnvel enn í sumum tilfellum. Hér er þó fyrst og fremst fjallað um hversdaginn, daglegt líf og fólkið á svæðinu. Bókin veitir því mikilvæga og einstaka innsýn inn í lífið á Ströndum á síðustu öld. Sögur, ljóð og vísur fá að fljóta með, enda er sagnamennska íbúum Stranda í blóð borin.