Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Oft eru gamlir hrafnar ernir

Unnur Guttormsdóttir – „kerlingarálftin“ – tekur myndir af fuglum, les hugsanir þeirra og setur í orð af skáldlegu innsæi. Í tilefni af áttræðisafmæli hennar 18. október 2021 birtast í þessari bók áttatíu af fuglamyndum hennar og tilheyrandi skondnar hugleiðingar og fuglahjal.
Fríða Bonnie Andersen skrifar afmæliskveðju í bókarlok.

„Þegar ég heyri hrossagauk hneggja fyrst á vorin verður mér hugsað til Unnar. Hún sagði mér að hrossagaukurinn væri spáfugl, hann gæti spáð fyrir komandi ári og því yrði maður að vera vel áttaður til að vita hvað biði manns. Hrossagaukurinn hefur nefnilega sex áttir. Heyrist hneggjað úr austri er það auðnugaukur. Úr vestri er það vesalgaukur. Úr suðri sælugaukur en norðri námsgaukur, uppi unaðsgaukur og niðri, sem gerist mjög sjaldan, nágaukur. Þetta kenndi hún mér ásamt því að þekkja fjöldann allan af mófuglum og hljóðin í þeim og muninn á kríu og hettumáfi, spóa og stelki, músarrindli og maríuerlu.“
– Fríða Bonnie Andersen