Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Rauði þráðurinn

Ný og aukin útgáfa

  • Höfundur Ögmundur Jónasson
Forsíða bókarinnar

Beitt pólitísk ævisaga, skrifuð af þekkingu á þróun síðustu áratugi. Hér er horft fram á veginn og lagst á sveif með þeim sem vilja vefa hinn rauða þráð. Kom fyrst út í ársbyrjun og er hér endurútgefin með viðauka þar sem reifuð eru stjórnmál yfirstandandi árs. „Örugglega besta bók sem ég hef lesið um íslensk stjórnmál.“ (Frosti Sigurjónsson)

Eftir að ég komst af unglingsaldri og lífsskoðanir mínar tóku að mótast til frambúðar, um og upp úr tvítugu, hefur mér aldrei þótt annað koma til greina í aðkomu minni að samfélagsmálum, hvort heldur verkalýðs- eða stjórnmálum, en að leggjast á sveif með þeim sem vilja vefa hinn rauða þráð. Hann er þráður jöfnuðar og samvinnu og úr honum eru ofin hin félagslegu stjórnmál.

Inn í þann vefnað, svo hann lýsi minni lífsskoðun, verður svo að setja frelsisþráðinn, að hver maður skuli vera frjáls svo fremi sem hann skaði ekki aðra, eins og John Stuart Mill, sá ágæti heimspekingur nítjándu aldarinnar, orðaði það eða á þá leið, og síðast en ekki síst þarf anarkí, svo ég verði sáttur, – ekki þá tegund sem hendir grjóti í fólk heldur hina sem teygir sig til forn Grikkja og vill forðast valdstjórn. Gríska orðið anarkos þýðir einfaldlega án leiðtoga, ekki stjórnleysi eins og hugtakið hefur verið þýtt á íslensku og er misvísandi. Þegar Kristjanía í Kaupmannahöfn - upphaflega sjálfsprottin hippanýlenda, utan við lög og rétt danska ríkisins – var upp á sitt besta, má heita að þar hafi anarkí verið við lýði en stjórnleysi var þar ekki. Því kynntist ég vel þegar ég kannaði samskiptamátann á þeim bænum sem fréttamaður íslenska Sjónvarpsins á Norðurlöndum á níunda áratugnum. Ég gerði einmitt sjónvarpsþátt um Kristjaníu og einnig hústökufólk í Kaupmannahöfn með áherslu á þennan þráð, hið valdlausa samfélag.

Rauði þráðurinn sem bókartitill er ekki úr lausu lofti gripinn. Halldór Gunnarsson heitinn, þá starfsmaður hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur, sagði einhverju sinni við mig að þegar að því kæmi að ég færi að horfa yfir farinn veg - sem ég yrði að gera - þá væri eini bókartitillinn sem kæmi til greina þessi: Rauði þráðurinn. Titillinn er þannig Halldórs.

Annars er þetta ekki nein endurminningabók í hefðbundnum skilningi. Í rauninni er henni miklu frekar ætlað að horfa fram á veginn en þó með hliðsjón af ýmsum lærdómum sem ég tel að draga megi af reynslunni; bókinni er ætlað að vera eins konar framtíðarsýn úr smiðju samtímans.

Ég hef ekki legið lengi yfir þessari bók. Þegar ég loksins kom mér að verki ákvað ég að skrifa hana nánast í belg og biðu. En auðvitað hafa þeir þankar sem hér birtast verið til staðar innra með mér, hafa sumir hverjir verið þar lengi að gerjast og eiga efalaust enn eftir að þroskast. Ég ætla ekki að bíða eftir hinni endanlegu útkomu enda er hún ekki til. Lífið heldur áfram og nýjar aðstæður koma sífellt upp og breyta iðulega skilningi okkar á lífinu – einnig því sem liðið er. Ég ætla þannig að leyfa mér að líta á þessa bók sem áfangaskýrslu, kannski best að sjá hana sem uppkast að því sem síðar verður.

Það er ágæt tilhugsun, nánast frelsandi.

(Úr formála höfundar)