Reykjalundur

Endurhæfing í 80 ár

Forsíða kápu bókarinnar

Stórskemmtileg og eiguleg bók með sögum og myndum sem ekki hafa áður birst. Auðvelt er að grípa niður í einstaka atburði eða tímabil og rammagreinar gera bókina einkar aðgengilega. Tilvalin gjafabók til stuðnings SÍBS og Reykjalundi.

Saga Reykjalundar teygir sig aftur til ársins 1945, seinni heimsstyrjöldinni er lokið og hermannabraggar standa auðir víða um land, meðal annars í grennd við Varmá í Mosfellssveit. Þessi húsakynni fengu nýtt hlutverk og nýjar byggingar risu: Vinnuheimilið að Reykjalundi varð til, þar fengu vistmenn stuðning og atvinnu við hæfi. Eftir hremmingar berklaveikinnar öðluðust margir ný tækifæri og nýja lífsvon. Í áranna rás efldist Reykjalundur jafnt og þétt og í fyllingu tímans varð staðurinn alhliða endurhæfingarstofnun þar sem margar faggreinar koma við sögu. Auk þess var rekinn umfangsmikill plastiðnaður á Reykjalundi um langt skeið.

Pétur Bjarnason rekur þessa sögu á ljósan og lifandi hátt og nýtir sér afar fjölbreyttar heimildir: Bækur, blöð, skýrslur, ljósmyndir og viðtöl við fjölda fólks sem þekkir starfsemi Reykjalundar frá ólíkum hliðum. Pétur hefur áður sent frá sér bókina Sigur lífsins þar sem sögð er saga SÍBS. Saman mynda þessi bókverk sterka heild þar sem merk saga er sögð á líflegan og fróðlegan hátt.