Séra Bragi - ævisaga

Forsíða kápu bókarinnar

Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en varð einn fremsti maður þjóðkirkjunnar, fyrsti heiðursborgari Garðabæjar og var kallaður „faðir Garðabæjar“. Innblásin og áhrifarík frásögn af manni sem mótaði samfélag sitt og helgaði líf sitt Guði.

Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri. Eftir stúdentspróf úr M.A., Akureyrarveiki og barnamissi ákvað hann að læra guðfræði. Það var heitstrenging eftir veikindin.

Í þessari ríkulega myndskreyttu ævisögu er rakin ótrúleg ævi brautryðjandans sem vígðist fyrstur íslenskra presta til þjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada, lagði grunn að æskulýðsstarfi Reykjavíkur og Þjóðkirkjunnar, var á meðal fremstu þjóna kirkjunnar, umbreytingamaður sem breytti skipulagi hennar með störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Séra Bragi stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna, æskulýðs- og skátafélög og var á meðal þeirra sem byggði samfélag frá grunni í Garðabæ. Hann var kallaður „faðir Garðabæjar“ og var útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins. Margir vildu að hann yrði biskup, en hér er því svarað af hverju hann vildi það ekki. Hann var óskoraður leiðtogi í Garðabæ þótt hann væri aldrei í kjöri til sveitarstjórnar.

Ævisagan byggist á bréfum, dagbókum, fjölbreyttum rituðum heimildum, handritum og viðtölum við yfir 40 samferðarmenn. Úr verður lifandi, persónuleg og innblásin saga um mann sem hafði mikil áhrif á samtíð sína og framtíð, atorkumikinn hugsjónamann sem vann ætíð í þágu hins fagra, göfuga og góða.

Hrannar Bragi Eyjólfsson (f. 1995) er lögfræðingur og situr í bæjarstjórn Garðabæjar. Hér skrifar hann einlæga frásögn af afa sínum séra Braga Friðrikssyni sem hann hefur unnið að undanfarin átta ár. Þetta er hans fyrsta bók.