Sjávarútvegur Íslendinga 1975-2025

Forsíða kápu bókarinnar

Í þessu fyrra bindi sögu sjávarútvegs Íslendinga síðustu 50 árin, allt frá útfærslu landhelginnar í 200 sjómílur árið 1975, er fjallað um starfsumhverfi og stjórnsýslu sjávarútvegsins. Jafnframt er rætt um stofnanir sjávarútvegs, hafréttarmál og alþjóðlega samninga og kjara- og verðlagsmál. Lykilverk um sögu og þróun sjávarútvegsins.

Efnahagslífið fyrir hálfri öld byggði á margvíslegum ríkisafskiptum þar sem sjávarútvegi var stjórnað með gengisfellingum og flóknu kerfi sjóða og millifærslna og fyrirgreiðslum og lánum hjá opinberum bönkum og fjárfestingalánasjóðum. Nú á dögum er sjávarútvegur sjálfstæð og öflug atvinnugrein sem keppir á alþjóðlegum mörkuðum og leggur mikið til þjóðarbúsins.

Afkoma greinarinnar hefur batnað á þessum tíma, skipum fækkað og samþjöppun orðið í veiðum og vinnslu. Hér er sögð saga þessara umskipta og sérstök áhersla lögð á að rekja hvernig stjórn fiskveiða hefur þróast og sagt frá þeim álitamálum sem fram hafa komið. Í seinna bindi verða fiskveiðar, fiskvinnsla og sölu- og markaðsmál í brennidepli.

Höfundar bókarinnar, Sigfús Jónsson, landfræðingur og sagnfræðingur, og Sveinn Agnarsson, hagfræðingur, hafa langa reynslu af rannsóknum, kennslu, stjórnun og ráðgjöf á sviði sjávarútvegs. Sigfús er fyrrverandi ráðgjafi, framkvæmdastjóri og bæjarstjóri og Sveinn er prófessor við Háskóla Íslands.