Skrímsli

í sjó og vötnum á Íslandi

Forsíða bókarinnar

Bók sem markar tímamót og er fyrsta heildstæða úttektin á þessum óþekktu dýrategundum í náttúru Íslands. Hún byggir á miklu safni frásagna og áratugalangri rannsókn þar sem höfundur hefur rætt við sjónarvotta og safnað hundruðum áður óskráðra lýsinga þeirra á þessum dýrum. „Mjög forvitnileg bók!“ – Kristján Kristjánsson Sprengisandi / Bylgjunni.

Bókin er stútfull af myndum og merkilegum frásögnum og hún geymir einstakt menningarsögulegt efni um þennan heillandi þátt í náttúrunnar. Gögn úr Íslandssögunni eru skoðuð ásamt erlendum heimildum fornum og nýjum. Í fyrsta sinn eru birtar ljósmyndir af skrímslasporum og skrímslahræjum og fjallað er um myndskeið sem náðst hefur af Lagarfljótsorminum. Þá eru myndir teiknaðar eftir lýsingu sjónarvotta sem sýna með nokkurri nákvæmni útlit þessara dýra.

Fyrir liggur að skrímslin skiptast í níu dýrategundir; sex í sjó og þrjár í vötnum. Sérstaklega er fjallað um þær tegundir skrímsla sem lifa á Íslandi og í hafinu utan landsteinana, allt frá hafmönnum og lyngbökum til nykra og sjálfs Lagarfljótsormsins.

„Þau eru þarna úti, það er engum blöðum um það að fletta.“ – Dr. Hilmar J. Malmkvist / líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Þorvaldur Friðriksson er menntaður fornleifafræðingur og vann lengi á fréttadeild Ríkisútvarpsins. Hann er höfundur bókarinnar Keltar sem sló rækilega í gegn og hlaut Bókmenntaverðlaun bókaverslana í flokki fræðibóka árið 2022.