Útgefandi: Sögur útgáfa

Anatómía fiskanna

Á samkomustaðnum Glóðarauganu ríkir sundrung eftir að Guðmundur Hafsteinsson hefur að semja smáauglýsingar í mannlífsblöð um líf sitt þar og annarra er staðinn sækja. Póstþjónusta Reykjavíkur sér þess ei annan kost en að gefa út sérrit til skýringar á því hvers vegna útburðarkonan Absentína Valsdóttir kýs að dreifa ekki þeim auglýsingum.

Bára og bæði heimilin

Bára er fjörug, fimm ára stelpa sem á tvö svefnherbergi, tvö rúm, tvo tannbursta og heilan helling af böngsum! Hún á nefnilega ekki eitt heimili heldur tvö. – Bók sem hjálpar okkur að skilja aðeins betur hvernig það er að eiga tvær fjölskyldur. „Loksins bók fyrir vikuvikubörnin! Sönn lýsing og fyndin í bland.“ / Hallgrímur Helgason, rithöfundur.

Borg hinna dauðu

Föstudagskvöld nokkurt í september yfirgefur hin 19 ára gamla Sigríður Bella Ólafsdóttir heimili sitt við Dragaveg. Hún segir engum hvert hún er að fara. Þegar hún skilar sér ekki heim hringja foreldrarnir á lögregluna. Það er eins og jörðin hafi gleypt dóttur þeirra. Spennan er yfirþyrmandi þegar Hörður Grímsson glímir við sitt flóknasta mál.

Frasabókin

Íslensk snjallyrði við hvert tækifæri

Yfir þúsund frasar, snjallyrði, orðtök og slanguryrði. „Skemmtilegur leiðarvísir sem birtir og skýrir frasa úr öllum áttum og frá öllum tímum. Framtíðin meðtalin.“ / Árni Matthíasson, menningarblaðamaður. „Bók sem hver einasti Íslendingur verður að eiga. Þetta er sko eitthvað ofan á brauð!“ / Ari Eldjárn, grínisti.

Hrafnskló

Kinga Jedynak er sextán ára. Pabbi hennar lést í vinnuslysi þegar hún var tólf ára og síðan þá hefur mamma hennar unnið myrkranna á milli til að framfleyta þeim. Kinga var rekin úr Hólabrekkuskóla fyrir ofbeldi og á kærasta sem er dópsali. En hún er enginn vitleysingur.

Kjöt

Sturlaugur var ein skærasta stjarna íslenska myndlistar­heimsins á yngri árum og stefndi á heimsfrægð þegar hann hvarf af hinu opinbera sviði. Fimmtán árum síðar snýr hann aftur með verk sem setur alla heimsbyggðina á hliðina. – Bragi Páll hristir hér hressilega upp í lesendum eins og í fyrri bókum sínum með beittum húmor og áleitnum spurningum.

Prjónadraumar

Hér má finna glæsilegar flíkur fyrir fullorðna og börn: peysur, sett, sokka, vettlinga og ýmislegt annað sem hugurinn girnist. Sjöfn Kristjánsdóttir hefur prjónað allt sitt líf og er löngu orðin þekkt fyrir fallegar uppskriftir. Leiðbeiningarnar eru allar skrifaðar á mannamáli og eru aðgengilegar jafnt grænjöxlum og þrautreyndum prjónurum.

Dagbók Kidda klaufa 17 Rokkarinn reddar öllu

Hér er komin sautjánda bókin í þessum vinsælasta bókaflokki heims, Dagbók Kidda klaufa. Kiddi klaufi vill verða frægur og ríkur. En hvernig fer maður að því? Jú, með því að vera í hljómsveit. Íslenskar þýðingar Helga Jónssonar á bókunum eru margverðlaunaðar. Kiddi klaufi fær alla til að lesa, líka þá sem nenna því ekki.

Saga Hnífsdals

Saga Hnífsdals er saga fólksins þar frá landnámi til sameiningar við Ísafjörð árið 1971. Metnaðarfullt fræðiverk og heillandi saga Hnífsdælinga fram á okkar daga – stór saga af litlu þorpi sem markaði spor í sögu þjóðarinnar. „Efnistök eru fjörleg og bókin lipurlega skrifuð og áhugaverð, ekki bara fyrir Hnífsdælinga.“ Sölvi Sveinsson, Morgunblaðinu

Skemmtilegu dýrin

sem eru ægileg en líka hlægileg, fyndin og furðuleg, skondin og skrítileg en fyrst og fremst forvitnileg

Mennirnir eru skemmtilegir en dýrin eru ennþá skemmtilegri! Það er að minnsta kosti skoðun þeirra feðgina Veru og Illuga sem skín í gegn í þessari forvitnilegu bók um fjölbreytilegan hóp dýra sem eru alls staðar í kringum okkur. Þetta er bók fyrir dýravini á öllum aldri, stútfull af myndum, fróðleik og skemmtilegum sögum af dýrunum.

Skrímsli

í sjó og vötnum á Íslandi

Bók sem markar tímamót og er fyrsta heildstæða úttektin á þessum óþekktu dýrategundum í náttúru Íslands. Hún byggir á miklu safni frásagna og áratugalangri rannsókn þar sem höfundur hefur rætt við sjónarvotta og safnað hundruðum áður óskráðra lýsinga þeirra á þessum dýrum. „Mjög forvitnileg bók!“ – Kristján Kristjánsson Sprengisandi / Bylgjunni.

Skuggar

Saga falls, útskúfunar, upprisu og uppgjörs

Skuggar segir frá örlagaríkum tímum í lífi Sölva Tryggvasonar. Ósönn slúðursaga fór á flug á samfélagsmiðlum og fjölmiðlar hentu hana á lofti. Við tók hvirfilbylur samfélagsumræðunnar sem jókst enn með tilkynningu um að konur hefðu kært Sölva til lögreglu. Í bókinni reynir Sölvi að skilja hvað gerðist og bregður um leið ljósi á sína dýpstu skugga.

Svikabirta

Fáeinum árum eftir að himnarnir opnuðust eru grimmileg morð framin á heimskautinu. Sú eina sem getur stöðvað morðingjann er norn sem er fangelsuð í fjarlægu landi. Í Svikabirtu dregur Ingi Markússon lesendur enn lengra inn í hélaðan heiminn sem hann skóp með fyrstu skáldsögu sinni, Skuggabrúnni, sem vakti mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda.