SÓN
tímarit um ljóðlist og óðfræði
Ársritið SÓN birtir greinar á sviði ljóðlistar og skáldskaparfræða, ný ljóð og ritdóma. Sónarskáldið 2025 er Kristín Ómarsdóttir. Þetta hefti hverfist að miklu leyti um samtímaljóðlist en varpar líka ljósi samtímans á eldri ljóðlist. Þannig sinnir tímaritið hlutverki sínu, hugar að liðnum tímum en líka ólgu dagsins, lesið meira:
Í heftinu er að finna ítarlega grein, SKURÐPUNKTUR SKÖPUNAR, þar sem rýnt er í hlutskipti íslenskra ljóðskálda nú á dögum og hugað að þeim breytingum sem hafa átt sér stað í útgáfu ljóðabóka á Íslandi síðustu áratugina. Fjallað er sérstaklega viðamikla sjálfsútgáfu íslenskra ljóðskálda. Greinin er góður upptaktur að þeim fjölda umsagna um ljóðabækur sem eru í þessu hefti og hafa aldrei verið fleiri. Fjallað er um 44 ljóðabækur, þar af 36 frumsamdar, sex ljóðaþýðingar og tvö ljóðasöfn.
Auk Sónarskáldsins, Kristínar Ómarsdóttur, birta sex önnur íslensk samtímaskáld ljóð í heftinu og einnig birtist íslensk þýðing á mögnuðu ádrepuljóði Emily Gorcensky sem fangar vel þá undarlegu tíma sem við lifum á.
Ein ritrýnd grein er í SÓN að þessu sinni og er hún um margt óvenjuleg því hún er afrakstur samvinnu á milli umhverfistónskálds og bókmenntafræðings og kallast ÞEGAR FYRIRBÆRI FLÆÐA. Greininni mætti lýsa sem fræðilegum hugleiðingum sem sprottnar eru af hendingunni „Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur“ í Sofðu, unga ástin mín. Hendingin verður höfundum kveikja hugleiðinga sem tengjast jöklum, ekki síst hopun þeirra og loftslagsbreytingum.
Þá er í heftinu merkilegt fræðslukvæði í rímnabúningi frá nítjándu öld. Kvæðið er eftir Jón Bergsted og kallast FÆÐINGARHJÁLPIN en þar er lýst í 114 erindum getnaði, meðgöngu, fæðingu og fæðingarhjálp.
Ritstjóri tímaritsins er Soffía Auður Birgisdóttir og hægt er að gerast áskrifandi hjá henni á soffiab@hi.is. Áskrift kostar 5000 kr. Að baki útgáfu tímaritsins stendur óðfræðifélagið BOÐN og eru ljóðaunnendur hvattir til að leggja tímaritinu lið með áskrift.
SÓN er prentað hjá Litlaprent.