Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Sumardagur í Glaumbæ

  • Höfundur Berglind Þorsteinsdóttir
  • Myndhöfundur Jérémy Pailler
Forsíða bókarinnar

Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig það var að alast upp í torfbæ í gamla daga? Í þessari ríkulega myndskreyttu sögubók fylgjum við Sigga litla, vinkonu hans Jóhönnu og heimilishundinum Ysju í einn dag í lífi þeirra. Bókin gefur innsýn í daglegt líf Íslendinga á árum áður. Bókin kemur út á íslensku, ensku, frönsku og þýsku.

Sumardagur í Glaumbæ er söguleg skáldsaga sem veitir börnum sem fullorðnum innsýn í líf og störf barna á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Þrátt fyrir að einungis séu um 140 ár frá því sagan á að hafa átt sér stað hefur daglegt líf fólks tekið gríðarlegum breytingum og er fátt sambærilegt í lífi fólks þá og nú. Sumt breytist þó ekki í tímans rás – eins og fjölskyldubönd, þörf fyrir öryggi, vinskap, gæðastundir og hlátur, og ekki síst ánægjan við að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Bókin er gefin út á íslensku, ensku, frönsku og þýsku.

Sögusviðið er Glaumbær, prestsetur í Skagafirði, sem taldist til efnameiri bæja með tilheyrandi umsvifum. Sagan er að mestu byggð á raunverulegu fólki sem bjó í Glaumbæ og Skagafirði á 19. öld. Upplýsingar um heimilisfólkið byggja á lýsingum í Skagfirzkum æviskrám og lýsingar á förufólkinu Myllu-Kobba, Rönku og Ropa-Katrínu eru ýmist fengnar úr hljóðskrám af ísmús.is eða ævisögunni Tvennir tímar, endurminningum Hólmfríðar Hjaltason eftir Elínborgu Lárusdóttur.

Í sögunni er leitast við að draga fram raunverulegar frásagnir og lýsingar út frá heimildum og gæða þær lífi. Ýmis þjóðlegur fróðleikur og atburðir, t.d. frásögnin um skapstyggu próventukerlinguna í Gusu, eru byggðir á smáritum Byggðasafns Skagfirðinga eftir Sigríði Sigurðardóttur. Bókin endar á nokkrum erindum úr Kvöldhugvekju eftir Sigurð Breiðfjörð (1798–1846), eins afkastamesta ljóða- og rímnaskálds 19. aldar.