Athugið að þessi bók er úr eldri útgáfu Bókatíðinda og birt hér með fyrirvara um mögulega sé ekki um að ræða nýjustu upplýsingar. Hafið samband við útgefanda til að fá nánari upplýsingar um hvort bókin sé fáanleg.

Bókafárið mikla

Forsíða bókarinnar

Rithöfundurinn Peter Piper er sannfærður um eigin snilli en gengur illa að fá gefna út sína fyrstu bók. Dag einn fær hann tilboð sem hann getur ekki hafnað. Honum býðst gegn ríflegri greiðslu og loforði um útgáfu eigin verka að gerast staðgengill höfundar, sem vill ekki láta nafn síns getið, að svæsinni skáldsögu sem slær í gegn á heimsvísu.

Kemur Peter sér þar með í kostuleg vandræði sem engan enda virðast ætla að taka.

Meinfyndin og gamansöm ádeila um heim bóka, rithöfunda og útgefenda – stundum með farsakenndum hætti en einnig með hárbeittum undirtóni.

„Ímyndið ykkur skemmtisögu sem hljómar eins og hún ætti sér sama uppruna og Monty Python, Benny Hill, Fawlty Towers og fyrstu myndir Peter Sellers.“ The Washington Post

„Tom Sharpe er fyndnasti höfundur samtímans.“ The Times

Tom Sharpe (1928-2013) var á sinni tíð oft kallaður fyndnasti höfundur Bretlands og gamansögur hans njóta enn mikillar hylli. Í Bókafárinu mikla gerir hann grín að heimsbókmenntunum, bókmenntakenningum, saklausum rithöfundum, útsmognum umboðsmönnum, ófyrirleitnum útgefendum – og eiginlega öllu sem á vegi verður.