Dagur þjóðar
Þróun 17. júní hátíðarhalda á 19. og 20. öld
Í þessari nýstárlegu bók er sýnt fram á hvernig 17. júní varð að þjóðhátíðardegi Íslendinga snemma á 20. öld, m.a. fyrir tilstilli sjálfstæðishreyfingar þess tíma, félaga í UMFÍ og ÍSÍ, auk verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Með þátttöku sinni gerði alþýða manna 17. júní að degi þjóðar án þess að yfirvöld tækju ákvörðun þar um.
Einnig er fjallað um samkeppni 17. júní við aðra hátíðisdaga, til dæmis stjórnarskrárdaginn 2. ágúst og fullveldisdaginn 1. desember. Höfundur leiðir þar í ljós ýmsar ástæður þessarar togstreitu svo sem hátíðarhöld meðal Vestur-Íslendinga og framvindu sjálfstæðisbaráttunnar hér á landi. Jafnframt er hér vakið máls á spurningum eins og þeim hvort allir landsmenn hafi átt jafnan aðgang að viðburðum hátíðarhaldanna og hver staða 17. júní sé eftir að nýjar útihátíðir öðluðust vinsældir.
Páll Björnsson er prófessor í nútímafræði og sagnfræði við Háskólann á Akureyri. Eftir hann liggja meðal annars ritverkin Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar, sem vann til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2011, og Ættarnöfn á Íslandi. Átök um þjóðararf og ímyndir, frá 2021, auk ritgerða og greina í tímaritum og bókum.