Útgefandi: Sögufélag

Farsótt

Hundrað ár í Þingholtsstræti 25

Þetta er saga um sjúkdóma, lækningar og tilraunir til að vernda samfélagið gegn sóttum. Þetta er saga borgar og velferðarkerfis en ekki síst saga af fólki. Aðalpersónan er þó gamla timburhúsið sem byggt var árið 1884 sem fyrsta sjúkrahús Reykvíkinga. Síðar var það gert að farsóttaspítala, geðsjúkrahúsi og seinast gistiskýli fyrir heimilislausa.

Jón Steingrímsson og Skaftáreldar

Séra Jóni Steingrímssyni var falin peningasending sem nýta átti til að endurreisa byggð á hamfarasvæðum Skaftárelda. Í leyfisleysi deildi hann út fé til nauðstaddra sem og sín sjálfs og var í kjölfarið kærður til yfirvalda í Kaupmannahöfn. Hér kemur fram nýtt sjónarhorn á móðuharðindin og mál Jóns. Í viðauka er Eldrit Jóns og lýsingar samtímamanna.

Mennirnir með bleika þríhyrninginn

Frásögn homma af vist sinni í fangabúðum nasista á árunum 1939-1945

Vitnisburðir um líf samkynhneigðra í fangabúðum nasista sem hefur haft ómæld áhrif víða um heim. Þetta er frásögn af mannlegri grimmd og niðurlægingu en líka mögnuð saga um mannlegt þrek og þolgæði, skráð af brennandi þörf til að miðla reynslu sem heimurinn vildi lengi ekkert vita af. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir ritar ítarlegan eftirmála.

Stund milli stríða

Saga landhelgismálsins, 1961-1971

Saga landhelgismálsins er þjóðarsaga. Hún er saga baráttu um lífshagsmuni og þjóðarheiður. Höfundur segir frá litríkum köppum og æsilegum atburðum, bæði á sjó og landi. Jafnframt setur hann atburði og ákvarðanir í samhengi, dregur ályktanir en eftirlætur lesandanum líka að mynda sér eigin skoðanir. Hér er þessi saga rakin í máli og myndum.

Saga Tímarit Sögufélags LX: 1 og 2 2022

Tímaritið Saga kemur út tvisvar á ári, vor og haust. Efni þess tengist sögu og menningu landsins í víðum skilningi. Ritrýndar greinar og viðhorf mynda stærstu efnisþætti tímaritsins. Í Sögu birtast einnig ritdómar og ritfregnir um nýjar bækur er varða sögu, einkum Íslandssögu, og annað efni af sagnfræðilegu tagi. Ómissandi öllu áhugafólki um sögu.