Fado Fantastico

Forsíða kápu bókarinnar

Blús er hægt að hlusta á, tangó er hægt að dansa, en fado verður að upplifa.

Á meðan Francisco Fantastico sefur úr sér áfengisvímu í bifreið skammt frá heimili sínu í Genf er hann skyndilega numinn á brott. Þar eru þó engir þrjótar að verki heldur António sonur hans sem ætlar að fara með hann alla leið til Lissabon.

Ökuferðin suður á bóginn verður að ferðalagi gegnum sögu og leyndarmál fjölskyldunnar en leiðir líka til uppgjörs gamalla skulda. Eftir því sem frásögninni vindur fram kemur betur í ljós að ekki er allt sem sýnist og óvíst að syninum takist það ætlunarverk að endurheimta týndan föður.

Svissneski höfundurinn Urs Richle hefur skrifað frumlegar og spennandi skáldsögur og fetar í þessari frásögn slóð þar sem sjónum er beint að auðnuleysi ólöglegra innflytjenda og ófyrirséðum atburðum í annars hversdagslegu lífi fólks.