Hitt nafnið
Sjöleikurinn I-II
Fyrsta bókin af þremur í stórvirki Nóbelshöfundarins, svonefndum Sjöleik. Seiðandi og stórbrotin saga um listina, um Guð, um alkóhólisma, vináttuna og framrás tímans. Hún fjallar um dauðann, en líka um þýðingu þess að vera á lífi, um hlýjuna frá hundi, gleðina við að keyra í snjó og bragðið af spældum eggjum og steiktu fleski.
Sögumaður er listmálarinn Ási, sem býr einn í smábænum Bugðu fyrir norðan Björgvin. Hann er varla í sambandi við nokkurn mann nema nágrannann Ásleik. Í Björgvin býr annar Ási sem líka er listmálari. Þeir nafnar eru gamlir vinir og á vissan hátt tvífarar. Þegar sögumaður er að undirbúa jólasýningu verka sinna, kemur hann að vini sínum við erfiðar aðstæður þar sem hann á sér kannski ekki viðreisnar von.
Jon Fosse (f. 1959) er einn þekktasti og virtasti samtímahöfundur Norðmanna. Allt frá fyrstu bók sinni, Raudt, svart (1983) hefur hann helgað sig ritstörfum og sent frá sér skáldsögur, ljóð, leikrit, barnabækur og ritgerðir. Verk hans hafa verið þýdd og gefin út á meira en fimmtíu tungumálum og leikritin sviðsett um allan heim. Fosse hefur einnig lagt stund á bókmenntaþýðingar. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna bæði í heimalandinu og erlendis. Árið 2015 hlaut hann Bókmenntaverðaun Norðurlandaráðs fyrir þríleikinn Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, sem kom út á íslensku 2016. Frá árinu 2011 hefur Fosse búið í Grotten, heiðursbústað norska ríkisins fyrir listamenn.
Jon Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels 2023.